1.6 milljarða framkvæmd í Árborg

Grein rituð í Dagskránna.

Fyrir rúmum áratug voru uppi verulegar áhyggjur af framtíð Litla Hrauns. Fangelsið er einn stærsti vinnustaðurinn í Árborg og hefur starfsemin mikil margfeldisáhrif inn í nærsamfélagið.

Bygging á nýju fangelsi á Hólmsheiði kallaði á þeim tíma fram spurningar og áhyggjur.

Athyglin hefur ekki verið á Litla Hrauni síðustu ár. Breytingar hafa verið umtalsverðar í fangelsismálum. Fangelsum verið lokað og önnur opnuð, starfsemin þróuð og nýjar og breyttar áherslur komið fram.

Fram kemur að alþjóðlegar nefndir geri athugasemdir við starfsemina. Það er því ekkert í hendi þegar kemur að framtíð Litla Hrauns.

Það er auðséð þrátt fyrir þessa stöðu að unnið er gott starf á Litla Hrauni.

Frumkvæði og nýbreyttni fær stuðning innan fangelsisins og þar er unnið að því að færa fangelsið og starfsemina nær kröfum nútímans. Þessu miðar þrátt fyrir að unnið sé við þröngan kost og oft við krefjandi aðstæður.

Eitt af því sem er eftirtektarvert með áherslur á Litla Hrauni er opnun út í samfélagið og samstarfsvilji.

Skólastarf blómstrar á Litla Hrauni í samvinnu við FSU, en um þriðjungur fanga er að jafnaði í námi á ýmsum stigum. Það er vel að verki staðið og sannarlega samstarf sem skilar árangri.

Mikil vakning er innan fangelsisins á sviði hugleiðslu og núvitundar og þar dregur Tolli Morthens vagninn.

Geðheilsuteymi er að nálgast heilbrigðisþjónustu við fanga með áhugaverðum hætti og áfram mætti tiltaka uppbyggileg dæmi.

Það eru því mikil tímamót nú er dómsmálaráðherra kynnti að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu ráðherrans um mikla uppbyggingu á Litla Hrauni.

Með þessari ákvörðun er allri óvissu er varðar framtíð fangelsisins eytt og þessi stóri og mikilvægi vinnustaður festur enn betur í sessi á þeim umbreytingatímum sem eiga sér stað í fangelsismálum á Íslandi.

Starfseminni á Litla Hrauni er ætlað að vera í fararbroddi, ekki í lausu lofti og á undanþágum.

Litla Hraun mun þannig standast allar nútíma kröfur og mæta alþjóðlegum viðmiðum.

Eitt af því sem er sérstaklega ánægjulegt við þessa framkvæmd er að komið verður fyrir öflugri heilbrigðis- og endurhæfingaþjónustu. Hugað verður sérstaklega að geðheilbrigði enda mjög mikilvægur þáttur í refsivörslukerfinu. Þannig mun það starf sem hefur verið og er verið að byggja upp, fá umgjörð og nauðsynlegt pláss þannig að það geti vaxið og þróast áfram.

Með þessum miklu framkvæmdum verður öll aðstaða bæði fyrir fanga og starfsfólk stórlega bætt.

Komið hefur fram að aðbúnaður og aðstaða aðstandenda til heimsókna verður einnig bætt. Því ber sérstaklega að fagna enda eru sterk tengsl fanga við fjölskyldu eitt það mikilvægasta varðandi velgengni fanga eftir að fangelsisvist líkur.

Þessi mikla uppbygging á Litla Hrauni mun hafa mikil og jákvæð áhrif inn í sveitarfélagið allt. Við munum öll njóta góðs af, en þó mest þeir sem dvelja og starfa á Litla Hrauni.

Áætlaður kostnaður við þessa stórframkvæmd er 1.6 milljarður.

Comments are closed.