Jónsmessan – ræða á Eyrarbakka

Við höfum öll eitthvað fram að færa, styrkleikar okkar og veikleikar eru sem betur fer mismunandi.  

Í 10 manna bekk eru ólíkir einstaklingar sem eiga í raun það eitt sameiginlegt að búa á sama svæði og að vera jafn gamlir.  

Í þorpinu okkar hér á Eyrarbakka búa tæplega 600 manns sem eiga einn hlut sameiginlegan.  Að búa á Eyrarbakka.  

Við veljum ekki hver er mesti eða besti Eyrbekkingurinn.  En ég held að við gerum annað.  Við horfum á einstaklinga í þorpinu okkar og sjáum hvað þeir eru að leggja til á grunni hæfileika sinna, góðmennsku og annara mannkosta.    

Það eru smiðir að byggja ný hús og að laga gömul.  Það er verið að reka veitingastað, það er verið að halda úti og að reka elliheimili, það er gott fólk að gæta barna í leikskólanum.  Það eru kennarar og annað starfsfólk að leggja sig fram í Barnaskólanum.  Það er fólk sem týnir upp rusl eftir aðra.  Það er fólk að vakna snemma til að færa okkur dagblöðin hvern morgun.  

Það er verið að passa upp á kirkjuna okkar og kirkjugarðinn, verið að reka sjoppu. Verið að halda úti ýmsu lista- og menningarstarfi.  Verið að efla Byggðasafnið og verið að reka gistiþjónustu.  Hafa Laugabúð opna, byggja upp sæbjúgueldi, laga götur og bæta umhverfi.  Það er fólk út um allt í þorpinu okkar að gera alls konar, fólk að rölta um byggðina og spjalla.

Allstaðar eru það ólíkir einstaklingar sem eru að leggja sig fram.  Sumir fá athygli aðrir ekki.  Allir eiga þessir ólíku einstaklingar það sameiginlegt að þeir eiga þakkir skildar eins og svo margir aðrir íbúar í okkar fallega þorpi.  

Útskrift í skólanum okkar hefur vakið umtal.  Það umtal á að vera okkur áminning um það að við erum öll að leggja okkur fram á ólíkan hátt og með ólíkum hætti.  

það bætir líf okkar allra að venja okkur á það sem fyrst á lífsleiðinni að við erum ólík, hæfileikar okkar eru mismunandi og að við þurfum mislangan tíma til að finna okkar fjöl þar sem styrkleikar okkar og hæfileikar fá notið sín.  

Munum að þakka það sem gott er og vel er gert.  Það gleður og dregur fram það besta í okkur.  

Skóli á að hjálpa til við það að draga fram það besta í hverju og einu okkar, en það gerir einnig gott samfélag og traustur vinur.  

Við búum öll yfir jákvæðum þáttum sem vert er að draga fram og það eru ótal leiðir til þess.  

Við erum alla daga að læra og þroskast.  Við höfum lært og við höfum þroskast.  Við getum horft bjartsýn fram veginn og við eigum að gera það. 

Skólabekkur er góður, því innan hans er fjölbreyttur hópur einstaklinga, fótboltalið er gott, því innan þess eru ólíkir einstaklingar með ólíka hæfileika.  

Það er gott að búa á Eyrarbakka vegna þess að þorpið samanstendur af fjölbreyttum hópi einstaklinga, sem býr í ólíkum húsum, við mismunandi aðstæður og hver og einn er að takast á við verkefni lífsins á sinn hátt. 

Jónsmessunefndin og fjöldi aðila er búinn að vera að undirbúa fyrir okkur og að bjóða upp á fjölda viðburða.

Allir eru að leggja sitt til, því þannig búum við til gott samfélag og það ber að þakka.  

Gleðilega Jónsmessu kæru Eyrbekkingar og annað gott fólk !

Comments are closed.