Guðmundur
Ármann

Guðmundur Ármann er Eyrbekkingur, en foreldrar hans keyptu Húsið (nú Byggðasafn Árnesinga) árið 1979 hófu á því endurbætur og gerðu að heimili sínu. Guðmundur Ármann hefur alla tíð haft sterka tengingu við Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfoss, fylgst með hvernig byggðin og mannlífið hefur þróast og hefur hann alla tíð verið virkur þátttakandi í nærsamfélaginu. 

Guðmundur Ármann er sonur Auðbjargar Guðmundsdóttur húsmóður og fyrrum starfskonu á leikskólanum Brimver á Eyrarbakka og Péturs Sveinbjarnarsonar (látinn) athafnamanns og fyrrum framkvæmdastjóra. Sambýliskona Guðmundar er Birna G. Ásbjörnsdóttir sem er að ljúka doktorsnámi í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands og starfar sem gestarannsakandi við Harvard Háskólasjúkrahús í Boston.

Birna og Guðmundur Ármann eiga tvö börn Emblu 17 ára og Nóa Sæ 12 ára. Dóttir Guðmundar frá fyrra sambandi er Auðbjörg Helga 26 ára. 

Guðmundur Ármann er menntaður rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst, með menntun í lífrænum/lífelfdum landbúnaði og með meistaragráðu í umhverfisfræði. 

Guðmundur Ármann er formaður Félags áhugafólks um Downs heilkennið, er í stjórn Landsamtakanna Þroskahjálp og í stjórn Vottunarstofunnar TÚN. 

Guðmundur var í hópi þeirra sem endurvöktu starf skátafélagsins Fossbúa á Selfossi, en hann var um árabil virkur í skátastarfi. Guðmundur stóð fyrir BRIM kvikmyndahátíð sem varðaði fræðslu um plastmengun í hafi og áhrif þess á okkur og lífríkið. Guðmundur Ármann er formaður Hverfisráðs Eyrarbakka.

Guðmundur Ármann hefur um árabil verið virkur þátttakandi í samfélagsumræðu, ritað greinar er varðar fjölbreytt málefni í innlend og erlendi dagblöð og tímarit auk þess að eiga samtöl í útvarpi og sjónvarpi. 

Guðmundur Ármann var framkvæmdastjóri Sólheima í 15 ár á tímum mikillar uppbyggingar og umbreytinga. Guðmundur Ármann sat í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps í 8 ár. Síðustu misseri hefur hann unnið að nýsköpunarverkefnum ásamt konu sinni. 

Framtíðin er björt fyrir hin ólíku svæði sveitarfélagsins. Sandvíkurhreppur, Stokkseyri, Eyrarbakki og Selfoss búa öll yfir fjölda tækifæra. Ég vil draga fram tækifærin, stuðla að uppbyggingu, leggja áherslu á umhverfismál og takast á við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins með því að einfalda, fara nýjar leiðir og vinna skipulega. 

Það eru krefjandi og spennandi verkefni sem þarf að takast á við í okkar ört stækkandi sveitarfélagi. Til að takast á við þau verkefni þarf að fara nýjar leiðir, það þarf reynslu, þor og skýra sýn. 

Menntun mín, fjölbreytt reynsla úr atvinnulífinu, sveitarstjórnarmálum og félagsmálum mun nýtast vel við þau verkefni sem takast þarf á við í bæjarstjórn Árborgar. 

Guðmundur Ármann

gudmundur_forsidumynd2

Málefnin:

Leik- og grunnskóli á að vera starfandi í öllum þremur byggðarkjörnunum í Árborg.

Semja á við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla og tryggja að þeir hefji starfsemi í Árborg. Þannig fjölgum við leik- og grunnskólaplássum hratt og með hagkvæmum hætti. Við fáum ferska vinda inn í skólasamfélagið í Árborg og gefum foreldrum og börn val. 

Íþrótta- og frístundastarf er öflugt í Árborg og einn helsti styrkleiki sveitarfélagsins. Sveitarfélagið á að standa þétt við bakið á þeirri fjölbreyttu og mikilvægu starfsemi. 

Samfélagslegt markmið okkar á að vera að börnin okkar upplifi öryggi og fái bestu mögulegu næringu, jafnt andlega sem líkamlega. 

Þín Árborg, Þitt app, Þinn aðgangur
Stafræn samskipti eiga að vera megin þjónustu- og samskiptaleið íbúa og stjórnsýslunnar. Við eigum að hefja strax stafræna vegferð sveitarfélagsins. Það þarf að fjárfesta í stafrænni þróun eins og í öðrum innviðum. 

Bætum aðgengi að upplýsingum, einföldum boðleiðir og aukum skilvirkni. Starf án staðsetningar á að vera valkostur. Fjárfestum minna í steypu og aukum sveigjanleika.

Við eigum að taka skrefið og nútímavæða stjórnsýsluna.

Aðalskipulag sveitarfélagsins á að nýta sem stefnumarkandi áætlun og ramma til að vinna eftir á markvissan hátt. Með vönduðu aðalskipulagi tryggjum við að uppbygging innviða fari saman við byggðaþróun og stækkun sveitarfélagsins. 

Leggja þarf aukna áherslu á vistvænar samgöngur í skipulagsmálum og að huga sérstaklega að þeim breytingum sem orkuskipti munu hafa á komandi árum. 

Ferill við útgáfu byggingarleyfa á að vera; skilvirkur – gagnsær – stuttur

Hugverkaiðnaður á að byggjast upp í Árborg, við eigum að skapa þær aðstæður. 

Skipuleggja á iðnaðar- og athafnasvæði sem grundvallast á hringrásarhagkerfinu. 

Sveitarfélagið á að sjá til þess að strax verði lagður ljósleiðari á Eyrarbakka og Stokkseyri þannig að íbúar þar og fyrirtæki geti nýtt sín tækifæri.

Með nýrri brú yfir Ölfusá opnast tækifæri, með alþjóðlegri höfn í Þorlákshöfn opnast tækifæri. Við þurfum og eigum að nýta þessi tækifæri. 

Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka, býr til fjölda tækifæra fyrir Árborg, ekki bara Eyrarbakka. Vinna þarf markvisst og strax að því að draga þau tækifæri fram.

Með því að draga með skýrum hætti fram styrkleika og helstu tækifæri Sandvíkurhrepps, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss tryggjum við best farsæla uppbyggingu á sveitarfélaginu Árborg. 

Við eigum að leggja áherslu á að hafa fjölbreytta valkosti í velferðarþjónustu, því öll viljum við eiga val. Ólík rekstrarform í velferðarþjónustu skapa tækifæri, opna á nýjungar, geta bætt þjónustu og aukið hagkvæmni. Nýsköpun í velferðarþjónustu er mikil og Árborg á að vera þar fremst meðal jafningja. 

Nýsamþykkt farsældarlög í þjónustu við börn eru tækifæri til að bæta stuðning, vinna markvisst og ná betri árangri

Þjónusta og stuðningur við fatlað fólk á að vera valdeflandi. Hver einstaklingur á að geta fengið stuðning á þeim stað sem hann óskar og nauðsynlegt er að fjölga þeim úrræðum sem fatlað fólk hefur úr að velja. Það eru fleiri aðilar en sveitarfélög sem geta rekið búsetuúrræði, fatlað fólk er t.d. er að reka eigið búsetuúrræði, förum nýjar leiðir.

Sveitarfélagið á að ganga á undan með góðu fordæmi í að opna leið fatlaðs fólk út á almennan vinnumarkað. 

Atvinnulífið þarf fyrirsjáanleika í samskiptum við bæjaryfirvöld, veitum hann með faglegri vinnu og skýrri framtíðarsýn. 

Með því að skilgreina iðnaðar- og athafnasvæði getum við stutt við fyrirtæki og verið enn áhugaverðari staður fyrir ný til að hefja starfsemi. Leggja á áherslu á hringrásarhagkerfið og að nýta skipulagsvaldið til að opna á fjölbreytt tækifæri á markvissan hátt. 

Innleiða á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stuðla að því að fyrirtæki og félagasamtök í Árborg geri það sama.

Nýta á einkaframtakið í verkefnum á vegum sveitarfélagsins, fjölgum þannig valkostum, eflum atvinnulífið og fáum fyrirsjáanleika í kostnaði. 

Sveitarfélagið á án tafar að tryggja að lagður verði ljósleiðari bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Öflugt og traust netsamband er forsenda uppbyggingar.

Markmið í fjármálum sveitarfélagsins á að vera að skattar á íbúa og fyrirtæki séu hófleg. 

Skuldastaða Árborgar er alvarleg og það verður krefjandi verkefni að vinna úr þeirri stöðu. Við þurfum að taka stjórn á fjármálum sveitarfélagsins í stað þess að bregðast við. 

Endurhugsum verkefni, förum nýjar leiðir og náum betri árangri þegar kemur að fjármálum sveitarfélagsins. 

Eflum starf frjálsra félaga og nálgumst framboð á íþrótta- og tómstundastarfi sem aðkeypta þjónustu. Bætum þannig fyrirsjáanleika félaga og sveitarfélagsins og aukum faglegan metnað. 

Árborg er fjölbreytt útivistarparadís sem auka þarf aðgengi sem flestra að. Göngu- og hjólastígar, reiðvegir, setbekkir og samverustaðir. Fjaran, fuglafriðlandið, skógurinn og áin. Vinna á með þeim sem besta þekkja til, til að efla fjölbreytta útivistarparadís í Árborg. 

Leggja á áherslu á fjölbreytni og valkosti þegar kemur að þjónustu og búsetuúrræðum eldri bæjarbúa. 

Gera þarf betur í að samþætta heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. 

Sveitarfélagið á að vera leiðandi í að nýta nýjungar í velferðartækni.

Hópur eldri bæjarbúa á erfitt með búsetu í heimahúsi og dvöl á hjúkrunarheimili hentar ekki eða er ekki í boði. Huga þarf sérstaklega að stöðu þess hóps.

Fjölbreytt starfsemi á vegum félags eldri borgara er mikilvæg og við hana ber að styðja. 

Styðja á við fjölbreytt menningarstarf í sveitarfélaginu og efla það. 

Hvetja á til viðburða og fjölbreytileika í skapandi starfi sem víðast í sveitarfélaginu

Söfnin á að efla og að nýta enn betur þau fjölmörgu tækifæri sem bæjarhátíðir og aðrir viðburðir opna fyrir okkur. 

Sveitarfélagið á að vera í fararbroddi í umhverfismálum. Því markmiði á að ná með skýrum og tímasettum undirmarkmiðum. Eitt af fyrstu markmiðunum ætti að vera að allir bílar í eigu og/eða notkun sveitarfélagsins og stofnana þess séu 100% rafbílar fyrir árslok 2024. Sveitarfélagið á að hvetja starfsfólk sitt til umhverfisvænna samgangna. 

Umhverfissjónarmið eiga að vera einn af megin ákvörðunarþáttum er kemur að innkaupastefnu sveitarfélagsins. 

Sveitarfélagið á að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að hvetja til þess að fyrirtæki og félagasamtök í sveitarfélaginu geri það sama. 

Sveitarfélagið á að ganga fram af metnaði í úrgangsmálum. Fjölga þarf flokkunarmöguleikum íbúa og fyrirtækja. Vinna markvisst í því að minnka úrgang og að nýta þau verðmæti sem falla til. 

Sveitarfélagið á að kolefnisjafna alla sína starfsemi og starfsemi frjálsra félagasamtaka sem starfa í sveitarfélaginu.  Það á að gera með þjónustusamning við skógræktarfélögin í sveitarfélaginu sem þá gróðursetja í sínu landi það sem til þarf til kolefnisjöfnunar. 

Greinar eftir Guðmund Ármann

Vertu í sambandi!