Hellisheiði ekki lengur hluti af þjóðvegi 1?

Grein rituð í Morgunblaðið;

Screen Shot 2018-03-10 at 09.21.44

—————————————————

Eftir nokkur ár verður staðan í samgöngumálum Sunnlendinga vonandi mjög breytt.

Þjóðvegur 1 frá Reykjavík á Selfoss verður um Þrengsli, sem þá verður búið að tvöfalda.  Hellisheiði er í 374 metra hæð yfir sjávarmáli, en Þrengslin aðeins í 288 metra hæð yfir sjávarmáli, munurinn er 86 metrar.  Sé vilji til þess að halda opinni leið frá Reykjavík á Selfoss þá eru Þrengslin mun eðlilegri valkostur m.t.t. aðstæðna og að sjálfsögðu verður vegurinn um Þrengsli 2+2.

Þegar komið er niður úr Þrengslum mun umferð frá Reykjavík sameinast þeirri umferð sem fer um Suðurstrandarveg og fara um Eyrarbakkaveg að Selfossi.  Eðlilegt er að sá vegur verði tvöfaldaður á Selfoss.  Suðurstrandarvegur er yfirleitt opinn yfir vetur og sama hægt að segja um Eyrarbakkaveg á Selfoss.

Á samgönguáætlun áranna 2023 til 2026 er ný brú yfir Ölfusá neðan núverandi byggðar.  Áætlaður kostnaður við þá framkvæmd er 5 milljarðar.  Við þá breytingu að færa þjóðveg 1 og þá umferð sem honum fylgir frá Hellisheiði og í Þrengsli, þá ætti umrædd brú að vera óþörf.

Það er spennandi verkefni fyrir skipulagsyfirvöld í Árborg að takast á við þessa breytingu m.t.t. byggðaþróunar og skapar þessi breyting ótal tækifæri.  Það er væntanlega kostur fyrir byggðina á Selfossi að umferðin fari í gegnum byggðina eins og t.d. í Borgarnesi með tilheyrandi tekjumöguleikum og atvinnusköpun.

Umferð um Hellisheiði er góður valkostur fyrir þá sem eru að sækja Uppsveitir Árnessýslu heim og þurfa ekki að koma við á Selfossi.

Hellisheiði gæti þróast með mjög markvissum og spennandi hætti sem eitt mest spennandi útivistarsvæði sem við eigum með fjölbreyttum tækifærum sem m.a. Hvergerðingar geta unnið úr á skapandi hátt.

Ef kortið á Google segir satt og rétt frá, þá tekur það þann aðila sem fer frá Reykjavík á Selfoss aðeins 5 auka mínútur að fara um Þrengsli í stað þess að fara um Hellisheiði.

Við eigum að vera óhrædd við að hugsa hlutina upp á nýtt.

 

 

 

Comments are closed.