Óþolandi lífshætta við Kerið í Grímsnesi.

Uppbygging þjónustu við náttúruperlur er til fyrimyndar og það er ánægjulegt að sjá hversu mikið af ferðamönnum stoppar til að njóta fegurðar Kersins í Grímsnesi og greiða fyrir það hóflegt gjald.
Það er jafn óþolandi að horfa upp á það skelfilega ástand sem er á umferð að, frá og við Kerið. Núverandi aðkoma að Kerinu er efst á blindhæð og þar eru vanir sem óvanir bílstjórar að stoppa, beygja og að skipta um skoðun á einbreiðum vegi þar sem mikil umferð bíla á um 90 km hraða fer um.
Í kvöld varð ég orðlaus. Eftir að hafa tekið fram úr bíl rétt eftir aðkomuna að Kerinu á leið minni á Selfoss sem var á um 50 km hraða stoppar bíllinn á miðjum veginum. Þverar götuna og keyrir svo til baka.
Hefði bíll verið á eftir mér eða ég ca 1 mínútu síðar á ferð þá hefði verið keyrt beint inn í lítinn jeppling sem í voru tveir einstaklingar og ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum. Enda hefði sá sem komið hefði yfir hæðina væntanlega verið á um 90 km hraða og keyrt beint inn í þennan bíl sem var þversum á miðri götunni og ógerlegt að sjá bílinn komandi yfir blindhæð.
Þetta er aðeins eitt dæmi af allt of mörgum sem við sem keyrum þennan veg reglulega höfum orðið vitni að og þessum lífshættulegu dæmum fjölgar aðeins. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær verður alvarlegt bílslys við Kerið.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hafnaði í nóvember á síðasta ári drögum að deiliskipulagi og lóðalblaði fyrir umráðasvæði Kersins vegna þess að það var mat sveitarstjórnar að nauðsynlegt væri að vegtenging að Kerinu yrði færð austar en nú er og það sama á við um fyrirhugaða uppbyggingu mannvirkja í tengslum við starfsemi svæðisins. Sveitarstjórn var með þeim hætti að leggja áherslu á að aðkoma að og frá Kerinu yrði færð á „hættu-minni“ stað og að vegtenging yrði bætt verulega.
Á ný kemur sama erindi frá forsvarsmönnum Kersins í febrúrar s.l. og af sömu ábyrgð bregst sveitarstjórn við og bókar eftirfarandi;
„Sveitarstjórn fellst ekki á fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu þar sem skoðun sveitarstjórnar er enn að færa þurfi vegtengingu og fyrirhugaða uppbyggingu austar en nú er, sbr. fyrri bókun sveitarstjórnar frá 8. nóvember 2017.“
Það eina sem gerist er að við færumst nær alvarlegu slysi/dauðaslysi við Kerið í Grímsnesi.

Comments are closed.