Að vera í takt við tímann og umhverfið

Grein rituð í Dagskránna;

————————————————————————

Screen Shot 2018-01-25 at 20.41.29

 

Það er okkur holt að taka í huganum skref aftur á bak, horfa á samfélagið og velta fyrir okkur hvað er og hvert við viljum fara.

Suðurland er ólíkt Suðurnesjum, Eyrarbakki er ólíkur Selfossi, uppsveitir Árnessýslu eru ólíkar Ölfusinu.  Við eyðum því miður of oft miklum tíma, peningum og sköpum ágreining þegar við hættum að virða sérkenni staða.

Suðurland og Suðurnes eru ólík svæði og eiga fátt annað sameiginlegt en að hafa sömu þingmennina.  Væri það hagur beggja ef kjördæmaskipan væri breytt, þannig að Suðurland og Suðurnes væru á ný sitt hvort kjördæmið?

Á síðasta ári fluttu um 1.000 manns í Árborg og ekki er ástæða til að ætla annað en að á næstu árum haldi áfram að fjölga og enn meira þegar búið verður að sameina sýsluna í eitt sveitarfélag.  Það virðast í grunninn tveir hópar fólks sem eru að flytja í Árborg.  Það er ungt fólk sem á oftar en ekki erfitt með að komast inn á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu.  Býr í Árborg en sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið.  Hinn hópurinn er eldra fólk í kringum lífeyrisaldur, sem losar eign á höfuðborgarsvæðinu, sækir þannig fé og kaupir minna húsnæði í Árborg.  Höfuðstaður okkar Árnesinga er að breytast hratt.  Flugvöllur sem var langt frá byggð fyrir aðeins nokkrum árum er í dag í jaðri byggðar og áfram vex byggðin og færist nær og nær þorpunum við ströndina.  Þjónustuhlutverk Selfoss gagnvart íbúum uppsveita, ferðamönnum og stjórnsýslu minni sveitarfélaga eykst með hverju árinu.

Erum við að skipuleggja almenningssamgöngur m.t.t. þessara breytinga, er skipulag hins umdeilda miðbæjar á Selfossi að mæta þessum breytingum, er væntanleg staðsetning á nýrri brú heppileg m.t.t. sameinaðs sveitarfélags Árnessýslu?  Erum við að styðja nægjanlega vel við framhalds- og iðnmenntun hjá okkar þannig að skólarnir eigi auðveldar með að koma fram með ný tækifæri og spennandi ögranir fyrir unga fólkið okkar?  Háskólanám er að breytast, hvað ætlum við að gera til að nýta þau tækifæri sem bjóðast og ef tækifærin bjóðast ekki, ætlum við þá að fara og sækja þau?

Hvernig verjum við og verndum Suðurland sem áfangastað fyrir þá ferðamenn sem munu koma til landsins eftir 15 ár?  Að óbreyttu verður búið að „yfirkeyra“ Árnessýslu sem áfangastað.  Meira af þeim tekjum sem verða til vegna ferðamanna sem fara um Árnessýslu þurfa að renna til nærsamfélagsins.  Fé þarf að renna til uppbyggingar, til nýsköpunar, til að vernda náttúruna og gera hana aðgengilega eins og við á.  Allt of mikið af þeim aðilum sem „selja perlur“ Suðurlands eru aðilar sem ekki tengjast eða eiga hagsmuni á Suðurlandi aðra en þá að sækja þangað tekjur og færa sig svo þegar eitthvað annað gefur betur.  Þessu þarf að breyta.

Er ósamstaða um sameingu sveitarfélaga í Árnessýslu að draga úr tækifærum okkur til að nýta styrkleika hvers svæðis?  Í Þorlákshöfn hefur verið byggð upp öflug höfn og þar er iðnaðartengd starfsemi í meira mæli en í öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu.  Þegar komið er til bæjarstjórnar Árborgar og boðið upp á 50 störf í litlu þorpi við ströndina við vinnu við iðnað þar sem þarf sand og framleiða á fyrir erlendan markað að þá eiga menn erfitt með að segja nei takk.  Í sameinuðu sveitarfélagi þar sem Árborg og Ölfus væru eitt, væri sagt okkar besta iðnaðarsvæði er í Þorlákshöfn þar er nóg af sandi og útflutningshöfn.  Eyrarbakki er öðruvísi staður, þar er verið að styðja við þorp sem byggir á menningu, sögu og náttúru.  Þar er verið að styðja við einstaka götumynd, þar er verkefnið „Verndarsvæði í byggð“.  Fjaran og sandarnir eru nýttir til útivistar auk þess sem þar er verið að bjóða upp á útreiðatúra í einstakri náttúru.  Bæjarstjórn gæti sagt nei, ekki þar vegna þess að það á ekki við og boðið valkost sem er betur við hæfi.  Sá staður er Þorlákshöfn, en í dag er það er annað sveitarfélag og þess vegna er sá valkostur ekki nefndur.

Þó að mál dagsins í dag séu aðkallandi, mörg og kjörtímabilið aðeins fjögur ár, þá þurfum við að taka skref út úr hringiðu dagsins og gægjast inn í framtíðina.  Samfélag okkar hefur líklega aldrei breyst jafn hratt og mikið og það er að gera þessi árin. Við getum eyðilagt og skemmt nátturuna og umhverfi okkar hraðar og meira en áður, en við getum einnig forðast mistök fyrri ára og nýtt þekkingu okkar og innsæi til ótrúlegra verka.   Ábyrgðin á framtíðinni er ekki sveitarstjórna- og alþingismanna, ábyrgðin er okkar allra og við þurfum að vera skynsöm.

 

 

Comments are closed.