Óli Ben, minningarorð

Það var mín gæfa að kynnast Óla Ben.  Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar  hann var 47 ára og ég 18 að hefja störf á Sólheimum.  Stað sem hafði verið heimili Óla frá því að hann var barn.  Þetta var upphaf 35 ára vináttu.

Í Óla átti ég mér fyrirmynd, hann átti vináttu mína og virðingu.  

Rólyndis maðurinn sem stökk fram jafnvel öskrandi og hoppandi þegar hann tók að sér þannig hlutverk í leikfélaginu.  Þessi virðulegi maður sem lærði ungur að vefa sat við stólinn og óf um árabil.  Maðurinn sem árum saman var fenginn út í garðyrkjustöð í nokkrar vikur á hverju ári vegna þess að engum var betur hægt að treysta þegar kom að sáningu.  

Það var allt aðeins bjarta, fallegra og skemmtilegra þar sem Óli var.  Hláturinn, brosið, einlægnin, sögurnar, dugnaðurinn, yfirvegunin, samtölin, nærveran, það var allt aðeins betra. 

Fullorðni og virðulegi maðurinn sem einstaka sinnum mætti á mínútunni kl. 9 á morgunfund.  Kom þá hlaupandi inn í salinn í íþróttahúsinu og renndi sér á sokkunum yfir hálfan salinn á meðan við hin stóðum í hring og fórum á bæn og vonuðum að allt færi vel, sem það ávallt gerði.  Allt til þess í senn að vera á réttum tíma og á réttum  stað í morgunhringnum okkar.  

Ef einhver nefnir við mig drossíu, þá hugsa ég til Óla, Óli var bílakall.  Ferðalögin jafnt hér heima og erlendis Óli naut þess að ferðast.  Sólgleraugu, stráhattur og Hawaii skyrta þegar farið var til sólarlanda.  

Óli var lánsamur með fjölskyldu og talaði mikið um það góða fólk sem stóð honum nærri.  Naut þeirrar miklu samveru ríkulega og sagði stoltur frá sínu fólki þegar heim var komið.  

Enginn hefur lengur búið að Sólheimum en Óli Ben.  Fyrir ekki svo mörgum árum var fagnað með súkkulaðiköku í Ingustofu. Óli hafði þá búið á Sólheimum í 70 ár, lengur en nokkur annar hefur gert.

Óli fékk eins og við öll líf fullt af krefjandi verkefnum.  Það hversu fallega, yfirvegað og skemmtilega Óli tókst á við lífsins verkefni er líklega ástæða þess að Óli var mér fyrirmynd.  

Ég votta fjölskyldu Óla og Eddu sambýliskonu hans mína dýpstu samúð.  

Takk fyrir birtuna, gleðina og minningarnar Óli.

Þinn vinur.

Guðmundur Ármann


Comments are closed.