Að þora og njóta þess að búa í samfélagi

Miðbærinn er á stuttum tíma orðinn að sannarlegum miðpunkt sem við erum stolt af.  Það gekk ekki átakalaust að sjá hann verða að veruleika og vissulega þurfti þrautseigju, trú á verkefnið og dug til að sjá verkefnið ganga eftir. 

Samfélagið var á tímabili nánast klofið í afstöðu til málsins. Ekki endilega að íbúar vildu ekki uppbyggingu á miðbæ, heldur meira hvernig hugmyndin var útfærð.  Í dag eru fáir sem efast um að vel tókst til og vonandi mun miðkjarni Selfoss halda áfram að vaxa og eflast.  

Þó átökin um uppbyggingu á miðbænum hafi tekið á, þá var þetta í raun mjög jákvæður og uppbyggilegur tími. 

Kraftmikil umræða hefur yfirleitt þau áhrif að hugmynd þroskast meira og betur.  Menn leggja sig einn meira fram og tekið er tillit til sjónarmiða sem annars hefðu ekki endilega komið fram.  Í mínum huga hefur Miðbæjarverkefnið, ekki á nokkurn hátt goldið þeirrar umræðu sem um verkefnið var, þvert á móti.  

Það sem er mest um vert er að íbúum stóð ekki á sama.  Að búa í samfélagi þar sem íbúar hafa skoðun á samfélagi sínu og þróun þess eru forréttindi enda er það lykillinn að góðu samfélagi.    

Við eigum að hvetja til skoðanaskipta.  Við eigum að virkja íbúa til þátttöku í samfélaginu á sem flestum sviðum.  

Áfram á að horfa á þau tækifæri sem einkaframtakið býður okkur upp á.  Við eigum að vera óhrædd við að skoða möguleika.  

Í mínum huga er orðið tímabært að bjóða íbúum í Árborg upp á nýtt tækifæri í krafti einkaframtaksins.  

Skoða á það ítarlega að fá sjálfstætt starfandi skóla á Selfoss.  Þar er væntanlega fyrsti kostur að ræða við forsvarsmenn Hjallastefnunnar.  

Með þeim hætti munu íbúar eiga fleiri möguleika.  Eiga val í fyrsta skipti á Selfossi þegar kemur að grunnskóla.  Með sjálfstætt starfandi skóla kæmu ferskir vindar inn í skólasamfélagið í Árborg.  

Fyrir sveitarfélagið kæmi fyrirsjáanleiki í fjármögnun og rekstri með því að gera fastan samning er varðar útgjöld.  

Fyrst og síðast er það ljóst að í Árborg vilja sem betur fer íbúar hafa skoðun á samfélaginu sem við búum í.  Við eigum að vera óhrædd við að ræða hugmyndir sem geta gert samfélag okkar betra.

Við eigum að njóta þess og vera þakklát fyrir að fá fram ólík sjónarmið.   Það er besta leiðin til að gera gott samfélag betra.

 

Comments are closed.