Vatnsklasi

Hugleiðing rituð í Dagskránna, fréttablað Suðurlands.

————————-

Aðgangur okkar að hreinu vatni á Íslandi er svo góður að við gleymum því hversu lánsöm við erum og hversu mikils virði allt þetta hreina og góða vatn er.   

Við tölum oft um hversu mikils virði, sjávarútvegurinn er okkur, ferðaþjónustan og hin magnaða náttúra landsins, en við tölum minna um vatnið okkar.   

Sjávarútvegurinn hefur síðustu ár farið í mikla vinnu þar sem hagræðing, arðsemi, umhverfismál og nýsköpun hafa verið sett í öndvegi.  Þessi vinna og þessi þróun hefur skilað því að íslenskur sjávarútvegur og íslensk nýsköpun í sjávarútveg af öðru ber.  Þar hafa margir lagst á árar, en þó er óhætt að nefna sérstaklega Íslenska sjávarklasann sem vakið hefur verðskuldaða athygli hérlendis sem erlendis.  

Íslensk ferðaþjónusta er óumbeðið að fara í gegnum mikla umbreytingu sem vafalaust mun taka nokkurn tíma.  Þessi umbreyting á án nokkurs vafa eftir að gera ferðaþjónustuna, sterkari sem atvinnugrein, þroskaðri, arðbærari og umhverfisvænni.  Nýsköpun verður leiðarstefið í þeirri spennandi vegferð.  

Náttúra landsins er að fá nauðsynlega vernd í formi friðlýsinga, sem nú eru sérstakt átaksverkefni.  Margt hefur verið friðlýst sem góð sátt er um, annað er umdeilt.  Allt er þetta mjög eðlilegt á þeirri vegferð sem hafin er.  Við þurfum að hlusta, breyta, aðlaga og bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum.  Um markmiðið held ég að flestir séu sammála, náttúru Íslands ber að venda og nýta á skynsaman hátt.  

En hvað með vatnið okkar?  Í mínum huga hefur vatnið jafn mikið virði fyrir framtíð okkar og tekjumöguleika og sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og náttúra landsins.  

Við höfum sett upp sjávarklasa, landbúnaðarklasa og ferðaklasa.  Þar er skapandi fólki búin aðstaða og stuðningur og þar hafa mörg frábær verkefni tekið sín fyrstu skref.  Verkefni sem hafa breyst úr hugmynd í vöru eða þjónustu.  Nýsköpun á Íslandi er kraumandi pottur hugmynda, framkvæmda og óþrjótandi tækifæra.  

Það er tímabært að skapandi fólk fari að vinna markvisst með eina af okkar dýrmætustu auðlindum, vatnið.  Virði vatnsins okkar liggur ekki aðeins í átöppun á flöskur.

Comments are closed.