Eru söfnin á Eyrarbakka vannýtt auðlynd?

Grein sem ég ritaði í Dagskránna, fréttablað Suðurlands.

screen-shot-2016-10-21-at-16-42-12Mikil fjölgun ferðamanna síðustu misseri hefur gefið okkur íslendingum ótrúleg tækifæri og breytt samfélagi okkar.  Þessum breytingum eigum við að fagna og tækifærin eiga að hvetja okkur til velta fyrir okkur nýjum möguleikum sem opnast við breyttar forsendur.

Byggðasafn Árnesinga sinnir mikilvægu og merku starfi á Eyrarbakka, rekur safn í Húsinu og Kirkjubæ auk þess að sjá um Sjóminjasafnið.

Hlutverk Byggðasafnsins er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi.

Varðveislu- og rannsóknahlutverk safnsins er mikilvægt þó ekki sé mikið um það fjallað.

Það er ekki sjálfgefið að það fari saman að sinna varðveislu- og rannsóknahlutverki minjaverndar og að markaðsetja og reka safn fyrir ferðamenn.

Er tímabært að breyta til og að bjóða út rekstur safnanna á Eyrarbakka.  Húsið með sýna einstöku, löngu og merku sögu, Kirkjubæ og Sjóminjasafnið.

Það er fjöldi aðila sem hefur faglega þekkingu og fjárhagslega burði til að bjóða í rekstur safna Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka.  Að sjálfsögðu þarf að vanda mjög vel slíkt útboð og skilgreina þær kvaðir sem fylgdu.  Skila þyrfti inn með tilboði hugmyndum viðkomandi um rekstur safnanna og uppbyggingu þeirra.

Myndu áhugasamir íbúar á Eyrarbakka stofna félag og bjóða í þetta verkefni, aðilar í ferðaþjónustu eða ?

Starfsmenn Byggðasafns Árnesinga ættu að fá tíma, fé og stuðning til að annast skráningu, varðveislu- og rannsóknarhlutverk sitt.

Einkaaðili ætti að fá tækifæri til að setja tíma, fé og kraft í að kynna söfnin á Eyrarbakka og að reka þau.

Það er fjöldi aðila sem hefur verið að byggja upp á Eyrarbakka. Sveitarfélagið lagar göngustíga og lýsingu með virðingu fyrir þorpsbrag Eyrarbakka. Gömul hús eru lagfærð, afþreyingu og gistimöguleikum fjölgar.  Rauða Húsið eflist með sínar góðu veitingar, menningarstarf blómstrar og Lauga-búð er einstakur áningastaður.

Þetta hefur gerst vegna þess að kraftmikið og áhugasamt fólk stígur fram og byggir upp.

Það er eðlilegt að sveitarfélögin í Árnessýslu greiði fyrir minjavernd og minjavörslu og efli þann þátt.

Söfnin á Eyrarbakka eru auðlind, fáum einkaframtakið til að efla söfnin, markaðsetja þau og þróa í takt við breytta tíma.  Söfnunum og samfélaginu til heilla.

Comments are closed.