Rétturinn til að vera ég

Grein sem ég ritaði í Suðra, Héraðsfréttablað.

_______________________

Orð geta allt, þau byggja upp og þau brjóta niður.  Orð geta sett af stað styrjöld og komið á friði.

Orð hafa þann góða eiginleika að þegar við notum þau í samskiptum og lýsingum að þá erum við erum umfram annað að lýsa okkur sjálfum.  Við erum að lýsa siðferði okkar og viðhorfum þrátt fyrir að við séum að fjalla um annað fólk.

Því miður virðist það vera að aukast að við setjum “stimpil” á fólk og aðgreingum.  Vissulega eru rök fyrir því að stundum eigi það við að aðgreina en það sem skiptir þá mestu máli er til hvers við aðgreinum og hvaða orð við notum til aðgreiningar.

Höfum það í huga að með ónærgætni í orðum að þá getur t.d. einstaklingur auðveldlega orðið “fötlun” eða „sjúkdómur“.

Það á ekki að skipta máli hvaða verkefni lífið færir okkur.  Öll viljum við vera einstaklingar.   Við eigum rétt á því að vera einstaklingur en ekki “fötlun” eða “sjúkdómur”.

Ef við þurfum að glíma við krabbamein, þá erum við ekki “krabbameinið” eða “krabbameinssjúklingur”.  Við erum einstaklingur sem er að glíma við krabbamein.  Sama á t.d. við um ADHD, þar er einstaklingur sem er að takast á við ADHD hann er ekki ADHD.

Mannvirðing felst í því að missa aldrei sjónar af hverjum einstakling og réttinum til að vera einstaklingur, óháð því hvaða verkefnið lífið felur okkur.

Það er von mín að við hættum að tala um fatlað fólk og fatlaða.  Tölum frekar um fólk með fötlun eða einstakling með fötlun.

Þegar það er nauðsynlegt að aðgreina, sem í eðli sínu á að vera eins sjaldan og hægt er, gerum það þá með áherslu á einstaklinginn.  Ekki fötlunina eða sjúkdóminn.

Hugum vel að orðum okkar þegar við tölum um fólk og skilgreinum það.  Gerum það ávallt af mannvirðingu.

Orð eru eitt það mikilvægasta sem við eigum.  Með orð ber að fara af hógværð, vinsemd og virðingu.

 

________________________________________________

 

Screen Shot 2016-07-10 at 12.25.39 PM

Comments are closed.