Einelti á netinu

Það hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum í umræðu um eineltismál að samfélagsmiðlar eru óspart nýttir þegar verið er að leggja einstakling í einelti.  Varnarleysi þolanda er nánast algjört þegar kemur að þessari tegund eineltis.

Það er til fyrirmyndar verkefni það sem Barnaheill og Ríkislögreglustjóri reka í sameiningu en það er Ábendingalína.

Í gegnum sérstakan hnapp er hægt að senda inn nafnlausar ábendingar um ólöglegt og/eða óviðeigandi efni á netinu. Þar er einnig hægt að tilkynna um mansal á börnum, klámefni sem er aðgengilegt börnum, um rafrænt einelti, um fullorðna sem misnota börn á ferðum sínum erlendis og fleira.

Ábendingarnar fara til skoðunar og rannsóknar hjá lögreglu sem rekur slóð efnisins, finnur hvar það er vistað og sér til þess að það sé fjarlægt.

Það er fyllsta ástæða til að efla þennan þátt í starfsemi Ríkislögreglustjóra og að tryggja embættinu fjármagn til að geta brugðist hratt við ofbeldismálum og öðru saknæmu á netinu.

Á vefsíðum skóla og félagsstarfs barna og unglinga ætti þessi hnappur að vera sýnilegur.  Foreldrar og þeir sem vinna með börnum eiga að vera meðvitaðir um þetta úrræði.  Einelti er barnaverndar- og lögreglumál og með því að taka þannig á því og með afgerandi hætti þá sýnum við þolendum þá virðingu sem þeir eiga að njóta og gerum gerendum ljósa þá ábyrgð sem orð þeirra og athafnir hafa á annað fólk.

Hnappinn til að senda inn ábendingu til Ríkislögreglustjóra er hægt að sækja á heimasíðu Barnaheilla.

Comments are closed.