Óásættanlegt ástand

Grein sem ég ritaði í Sunnlenska fréttablaðið – það er bókstaflega hættuástand á Suðurlandi.

Lögregla og sjúkraflutningamenn verða að fá stuðning og það verulegan til að takast á við þau verkefni sem þeim eru falin.

Doc - 16.4.2016, 11-15

________________________________________________________________________________________________________________

Suðurlandsumdæmi er jafn stórt Belgíu og á svæðinu búa 23 þúsund manns.  Í uppsveitum Árnessýslu er fjölmennasta sumarhúsabyggð landsins og tvöfaldast oft íbúafjöldi svæðisins alls yfir sumarmánuðina.  Um þetta umdæmi munu fara rúmlega ein milljón ferðamanna í ár.

Á vakt í öllu umdæminu við almenna löggæslu eru 6 til 8 lögreglumenn.

Það var niðurstaða skýrslu ríkislögreglustjóra að lögreglan á Íslandi væri undirmönnuð og fjársvelt.  Innanríkisráðherra brást við þessu og veitti nýlega aukalega 400 m.kr. til löggæsluumdæmanna.  Suðurlandsumdæmi fékk 5% fjárveitingarinnar eða 20 milljónir.  Lögreglustjórinn á Suðurlandi mat þörfina 200 milljónir.

Lögreglan á mikið hrós skilið fyrir að vinna við þessar ótrúlegu aðstæður, en ástandið er ekki boðlegt, hvorki fyrir íbúa né lögregluna.

Vaktina í Suðurlandsumdæmi standa fjórtán til fimmtán sjúkraflutningamenn og af þeim eru tíu á bakvakt.

Neyðarútköllum á Suðurlandi þar sem líf liggur við hefur fjölgað um 88% síðastliðin fimm ár.  Aukningin er rakin til ört vaxandi fjölda innlendra ferðamanna í sumarhúsabyggðum á Suðurlandi og gífurlegs fjölda erlendra ferðamanna sem fara um Suðurland.

Árið 2015 var eitt af hverjum sjö útköllum sjúkraflutninga vegna útlendinga.  Miðað við áætlaða fjölgun ferðamanna mun aukningin verða um 10 til 15% á þessu ári.  Það er ekki hægt að gera þá kröfu til sjúkraflutningamanna að þeir geti með sóma axlað þá ábyrgð sem þeir eiga að bera.

Við þessar aðstæður blómstrar ferðaþjónustan og engar eru hömlurnar.

Er það boðlegt að ferðþjónustufyrirtæki geti gert nánast það sem þeim dettur í hug óháð þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi.  Mörgum þykir nóg um að mæta rútum sem taka milli 50 og 70 farþega, hvort heldur það er í miðborg Reykjavíkur eða á leið á Gullfoss og Geysi.

Brátt munu víst koma til landsins rútur sem geta tekið yfir 90 farþega. Munu svo stórar rútur aka Biskupstungnabraut, veg sem ekki ber núverandi umferð.   Veg þar sem bílar eiga í erfiðleikum með að mætast. Keyra með farþega út í Reynisfjöru eftir vegi sem vart hentar fólksbílum?

Er það forsvaranlegt að bílaleigur beri ekki ábyrgð heldur leigi bíla til hvers sem er aðeins ef viðkomandi hefur gilt bílpróf.  Er það eðlilegt að rétta aðila lykil af smábíl og GPS tæki í brjáluðu veðri í janúar jafnvel þó viðkomandi bílstjóri hafi aldrei séð snjó, hvað þá keyrt við þær aðstæður?

Við erum komin í þá stöðu að vera með vegi sem ekki bera umferð sem um þá fer, hvað þá að ráða almennilega við að stór farartæki mætist.

Aðstæður eru þannig að í tveimur rútum sem mætast á 90 km hraða á veg sem ekki ber þessi farartæki né var hannaður til þess –  þar geta auðveldlega verið yfir 150 manns.  Færi aðeins önnur rútan út í kannt og myndi velta eða myndu þessar rútur keyra hvor framan á aðra yrði hópslys sem væri án fordæma.

Hvernig ætlum við að bregðast við og við hvað ráðum við?

Að byggja upp innviði er ekki átaksverkefni, það þarf að stjórna, fjármagna og setja reglur til að tryggja frelsi og öryggi.  Núverandi ástand á Suðurlandi er óásættanlegt.

 

Comments are closed.