Verður búsetuúrræðum fyrir fatlaða á landsbyggðinni lokað?

Í desember s.l. samþykkti alþingi lög um málefni fatlaðs fólks.  Í 10 grein þeirra laga segir;

„Húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk samkvæmt lögum þessum skulu vera í íbúðabyggð, sbr. skipulagslög.  Jafnframt skulu húsnæðisúrræðin staðsett nærri almennri og opinberri þjónustu sé þess nokkur kostur“.

Sem betur fer þá hefur um árabil fötluðu fólki staðið til boða búsetuúrræði til sveita og  það  er til fólk fatlað sem ófatlað sem hefur áhuga á að búa í sveit.   Fyrri setning þessarar lagagreinar hefur því miður verið í lögum frá árinu 1992 og fatlaðir því einir búið við það misrétti að mega ekki samkvæmt lögum búa í sveit.

Athygli félagsmálanefndar  alþingis var vakin á þessu misrétti og að fötluðum væri með þessu mismunað og það í lögum er varða málefni fatlaðs fólks.  Viðbrögð alþingis voru þau að bæta við seinni setningunni, þ.e. að til viðbótar við misréttið að þá skuli búsetuúrræðið  staðsett nærri almennri og opinberri þjónustu.  Verði þessu fylgt eftir (en væntanlega á að fylgja lögum) þá er í raun búið að útiloka að fatlað fólk megi búa á stöðum á stærð við t.d. Eyrarbakka eða Stokkseyri.

Það misrétti sem er í lögum um fatlað fólk og fatlaðir einir mega þola, þ.e. að samkvæmt lögum megi fatlaður einstaklingur ekki  hafa húsnæðisúrræði nema í íbúðabyggð hlýtur að teljast brot á mannréttindum.

Sú sorglega staða er uppi að fjöldi  staða/aðila er að veita fötluðu fólki þjónustu í búsetu til sveita, samkvæmt lögum þá er sú starfsemi ólögleg.  Verður ein fyrsta afleiðing af nýsamþykktum lögum um fatlað fólk sú að þessum stöðum verður lokað?  Sú lokun væri þá ekki afleiðing þess að fatlað fólk vill ekki njóta þjónustunnar.  Sú lokun verður  vegna  forsjárhyggju alþingis og því að það sé ekki ásættanlegt að fatlað fólk búi í sveit og geti ekki gengið í Bónus.  Þeir sömu þingmenn og samþykktu þessi lög töluðu mikið um mikilvægi þess að bjóða upp á  fjölbreytt úrræði fyrir fatlaða, þeirri fjölbreytni er þá væntanlega ætlað að vera á malbiki en ekki möl.

Það er einnig nokkuð athyglisvert í þessu samhengi að umrædd lög snúast fyrst og fremst um að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.  Þrátt fyrir að flest sveitarfélög séu hluti af þjónustusvæði, þá er verið að flytja málaflokkinn til sveitarfélaganna en ekki þjónustusvæðanna.

Sú athyglisverða staða er því uppi í mörgum sveitarfélögum að sveitarfélag tekur yfir málefni fatlaðra en má svo ekki samkvæmt sömu lögum bjóða fötluðu fólki í sveitarfélaginu  sínu upp á húsnæðisúrræði.   Úrræðið má aðeins vera í íbúðabyggð og helst nálægt almennri og opinberri þjónustu, það eru ótrúlega mörg sveitarfélög sem ekki geta mætt þeirri lagalegu kröfu.

Grundvallaratriðið er að fatlað fólk eins og allt annað fólk á að hafa val og það er ekki hlutverk alþingis að takmarka val hjá einum hópi fólks.  Óski fatlað fólk ekki eftir þjónustu í búsetu til sveita er sjálfhætt að bjóða upp á þá þjónustu.  Einstaklingurinn á að ráða búsetu sinni sjálfur, alþingi hefði betur tryggt þann rétt.