Velferð tilmælanna

Það hefur ekki í seinni tíð reynt jafn mikið á íslenskt velferðarkerfi og nú gerir og því miður hafa komið í ljós allt of miklar brotalamir á kerfi sem margur hélt að væri öðrum þjóðum til eftirbreytni.

Það sem er þó alvarlegast í dag er það sem minnst er rætt, en það er þráhyggja yfirvalda við að færa viðkvæma málaflokka til sveitarfélaga sem og getu- og úrræðaleysi yfirvalda til að standa með þeim sem þurfa á aðstoð/þjónustu sveitarfélaganna að halda.

Á meðan það eru 76 sveitarfélög á Íslandi,  meðan Ísland gengur í gegnum efnahagshrun og á meðan fjöldi sveitarfélaga  glímir við verulega rekstrarörðugleika, þá á ekki að vista viðkvæmustu þætti samfélagsins hjá sveitarfélögunum.

Það má vel vera að eitt og eitt sveitarfélag geti ráðið við verkefnið við þessar aðstæður og að menn geti fært góð rök fyrir því, en það  er einmitt  í sjálfu sér vandamálið.  Á Íslandi á að vera sami réttur til félagslegrar þjónustu og bóta hvar sem fólk býr.

Það er að verða grundvallar breyting á íslensku velferðarkerfi.  Áður voru sett lög og reglugerðir þar sem réttur fólks var tiltekinn.  Núna eru mál/málaflokkar færð til sveitarfélaga á sama tíma og sjálfdæmi sveitarfélaga til útfærslu er aukið.

Hið nýja íslenska velferðarkerfi er „velferð tilmælanna“.  Ráðherra velferðarmála getur því komið fram í fjölmiðlum og lýst yfir miklum áhyggjum af velferð þegna sinna og mikilvægi þess að bæta úr málum.  Því er svo fylgt úr hlaði með „tilmælabréfi“ ráðherra til sveitarstjórna eins og  fyrsta tilmælabréfið á þessu ári sem kynnt  var fyrir fjölmiðlum þann 4 janúar en undirritaður hefur ekki enn séð sem sveitarstjórnarmaður.  Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla þá mun þar þeim tilmælum beint til sveitarstjórna að hækkuð sé mánaðarleg framfærsla til þeirra einstaklinga sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Niðurstaða, væntanlega munu flest sveitarfélög sleppa því að hækka framfærslu vegna fjárhagsstöðu sinnar, einhver sveitarfélög munu hækka, sum hækka aðeins, önnur hækka meira.  Mun þá fólk þurfa að flytjast milli sveitarfélaga til þess að geta fengið bætur sem slaga upp í framfærslu?  Munu sveitarfélög sjá sér hag í því að halda bótum eins lágum og hægt er til þess að takmarka með „óbeinum hætti“ fjölda bótaþega í sveitarfélaginu?

Málefni fatlaðs fólks hafa nú verið flutt frá ríki (þar sem allir höfðu jafnan rétt) yfir í velferð tilmælanna, þ.e. til sveitarfélaga (þar sem réttur er/verður mismunandi).  Næst skal svo flytja málefni aldraðra yfir í velferð tilmælanna.

Í þeirri velferð sem var, þá var einfaldlega framfærsla hækkuð ef um það var tekin ákvörðun og þá fór sú hækkun til allra.

Hin nýja velferð, þ.e. „velferð tilmælanna“, þar ríkir samhugur og farið er með fögur orð.  Á eftir koma svo tilmæli til 76 sveitarfélaga sem gera ýmist ekkert eða eitthvað við tilmæli ráðherra. Eftir stendur sá sem á að njóta þjónustunnar / fá bæturnar með tilmælabréfið sem er það eina sem er fast í hendi.