Jafnræði fyrir aðra en fatlaða

Örfáir stjórnmálamenn hafa verið haldnir þeirri þráhyggju um árabil að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.  Það er í raun orðið svo langt síðan að þessi sorgarsaga hófst að þær fáu þjóðir sem fetuðu þessa braut sjá eftir því og allt aðra áherslur eru í málaflokki fatlaðra nú en voru þá.  Samt er haldið áfram eins og engin þróun hafi verið í málaflokki fatlaðra í yfir áratug.

Það vekur því sérstaka athygli þegar sömu stjórnmálamenn fara fyrir breytingum á stjórnskipunarlögum þar sem gera á landið að einu kjördæmi.

Í greinargerð með því frumvarpi eru sérstaklega tilgreind fjögur atriði um kosti þess að landið sé eitt kjördæmi.

  1. Fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar.
  2. Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um.
  3. Þingmenn hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þröng kjördæmissjónarmið.
  4. Kosningakerfið er einfalt og auðskilið.

Með því að færa málaflokk fatlaðra til sveitarfélaga þá er að sönnu verið að brjóta alvarlega á þeim fjórum megin atriðum sem mikilvæg þykja er kemur að vægi atkvæða.  Með þessari breytingu sem núverandi og einn fyrrverandi félagsmálaráðherra hafa lagt svo mikla áherslu á þá er verið að:

  1. Tryggja ójöfnuð fatlaðra,  enda verður réttur fatlaðra og þjónusta mismunandi eftir sveitarfélögum, þetta er því miður staðreynd þar sem þetta hefur verið gert erlendis.
  2. Fatlaður einstaklingur fær ekki í öllum tilvikum þann stuðning sem samfélagið ætlar honum með þessari breytingu, réttur mismunandi eftir sveitarfélögum.
  3. Sveitarstjórnarmenn munu frekar horfa á hagsmuni síns sveitarfélags, en heildar hagsmuni fatlaðra einstaklinga.
  4. Réttur fatlaðra verður flóknari en nú er auk þess sem réttur í einu sveitarfélagi er ekki réttur í öðru sveitarfélagi.

Af hverju leggur félagsmálaráðherra sem meðflutningsmaður frumvarps um breytta stjórnskipan áherslu á sama rétt til allra kosningabærra manna, en þegar kemur að rétti fatlaðra þá á að búta hann niður á tæplega 80 sveitarfélög og það hjá 300 þúsund manna þjóð sem í ýmsum löndum myndi teljast vera eitt frekar lítið sveitarfélag?

Comments are closed.