Málefni fatlaðra hjá fötluðum

Að óbreyttu verður málaflokkur fatlaðra fluttur frá ríki til sveitarfélaga eftir 12 vikur.  Lagafrumvarp er ekki komið fram, það liggur fyrir að ekkert eftirlitskerfi er né verður til staðar í náinni framtíð.  Við þetta bætist svo að úttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu málaflokksins í dag og á yfirfærslunni er einn stór áfellisdómur.

Það er búið að veltast með þetta mál í raun frá árinu 1992 og það er fyrst og fremst tvennt sem er að, annars vegar að málið ekki tilbúið til flutnings til sveitarfélaga og hins vegar að það hafa orðið miklar breytingar á málaflokki fatlaðra á 18 árum og til þeirra hefur ekki verið horft.

Þegar gera á jafn stóra breytingu á málefnum fatlaðra þá verður einfaldlega að skoða það sem best er á hverjum tíma.  Ef gera á breytingar þá á að horfa til framtíðar, ekki fortíðar.

Ef horfa á til framtíðar er það algjört grundvallaratriði að málaflokkurinn og fjármagnið færist til fatlaðra sjálfra.

Framtíðin er notendastýrð þjónusta þar sem það er einstaklingurinn sjálfur sem ákvarðar með hvaða hætti honum best hentar að fá sína þjónustu.  Samfélagið hefur tekið ákvörðun um að styðja þá aðila sem eru fatlaðir til sjálfshjálpar og það á því að vera hins fatlaða að ákveða með hvaða hætti hann nýtir þann stuðning sem samfélagið veitir honum.

Með því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga verður ekki tryggt jafnræði.  Þetta sýnir reynslan hjá þeim fáum þjóðum sem stigið hafa þetta ógæfuspor.  Einstaklingar verða í raun  hnepptir í „búsetufjötra“ og munu ekki njóta sama réttar, heldur verður réttur einstaklinga breytilegur eftir sveitarfélögum.

Það er nauðsynlegt að greina á milli greiðanda (ríkið), þess er gerir þjónustumat sem ákvarðar fjármagn (ríkið),  eftirlitsaðila (ríkið) og rekstraraðila (oftast ríkið).  Þetta er ekki eðlilegt og brýtur gegn eðlilegri stjórnsýslu.  Það að færa þetta kerfi lítið breytt yfir á rúmlega 70 sveitarfélög er ekki á nokkurn hátt framför í þjónustu við fatlaða, heldur afturför sem hamla mun nauðsynlegri þróun í þjónustu við fatlaða einstaklinga um langt árabil.

Það er eðlilegt að ríkið sé greiðandi, þjónustumat sé gert af Greiningarstöðinni og að ríkið annist eftirlit með þjónustunni.  Ríkið á ekki að vera þjónustuveitandi það á að vera hinn fatlaði sem tekur þær ákvarðanir.  Valkostirnir eiga að vera margir og ólíkir sem og þeir sem bjóða upp á þjónustuna.

Fatlaðir þurfa ekki steypu, fatlaðir þurfa fjármagn sem þeir geta nýtt í að kaupa sér þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Ef menn vilja af metnaði bæta stöðu fatlaðra þá þarf að færa málefni fatlaðra til fatlaðra, en ekki eyða tíma fé og fyrirhöfn í kennitöluflakk á milli stjórnsýslustiga.

Comments are closed.