Bótaþegi eða launþegi

Screen Shot 2015-10-26 at 12.09.07
Einstaklingur með fötlun fær bætur úr ríkissjóði vegna þess að hann er sökum fötlunar sinnar ófær um að afla sér tekna.

Bætur eru lágar og það er eins og það sé helsta markið „kerfisins“ að tryggja það að enginn hafi það of gott. Þannig að betra er að tryggja að sem flestir hafi það jafn slæmt í stað þess að margir geti haft það gott.

Það kerfi sem við búum við er úr sér gengið og úrelt. Kerfið er „við og þið“, þ.e. þið sem þurfið á okkur að halda. Það er löngu tímabært að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að fólk með fötlun hætti að vera bótaþegar og verði í þess stað launþegar.

Það er grundvallar munur á því að vera bótaþegi eða launþegi. Nú þegar verið er að vinna að breytingum á atvinnumálum fatlaðs fólks þá eigum við að hafa metnað og gera raunverulegar breytingar.

Launaseðill fatlaðs fólks á að vera eins og launaseðill annarra starfsmanna, þar sem greitt er í lífeyrissjóð og verkalýðsfélag eins og hjá öðru starfsfólki.

Sú kvöð ætti að vera á þessari greiðslu að hver einstaklingur ætti að mæta til vinnu eða í virkniúrræði sem honum væri séð fyrir af sveitarfélagi eða öðrum aðila, þó ekki væri nema hluta úr degi hjá þeim einstaklingum sem búa við mjög skerta starfsgetu.

Hafi einstaklingur tækifæri á að sækja sér auknar tekjur með vinnu eða öðrum hætti getur sá einstaklingur gert það líkt og hver annar. Þær tekjur eru þá skattaður með nákvæmlega sama hætti og hjá öðrum í gegnum almennt skattkerfi.

Þannig getur fatlað fólk verið að leggja til samfélagsins með skattgreiðslum sínum eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins.

Hugarfarsbreyting gagnvart fötluðu fólki er tímabær og sú grundvallarbreyting að fatlað fólk færist frá því að vera bótaþegar í að vera launþegar er einfaldlega réttlætismál.

Comments are closed.