Fyrirsjáanleiki og framtíðarsýn í menntamálum

Grein rituð í Dagskránna.

Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSU) var stofnaður árið 1981. Það má vafalaust búa til dálk í Excel sem kemst að þeirri niðurstöðu að skólinn sé ekki hagkvæm rekstrareining. Við vitum þó vel að skólinn og allt sem hann leggur til er ómetanlegt. Án hans viljum við ekki byggja okkar samfélag. Við viljum efla hann og styrkja hvað sem Excel segir. Með framtíðarsýn og fyrirsjáanleika hefur FSU eflst ár frá ári. 

Háskólafélag Suðurlands var formlega stofnað í desember 2007. Þar höfðu stofnaðilar meðal annars þá framtíðarsýn að tryggja þyrfti betur aðgengi Sunnlendinga á háskólamenntun. Með fyrirsjáanleika og framtíðarsýn hefur Háskólafélagið byggst upp og verið öflugur stuðningur við þá sem stunda háskólanám. Háskólafélagið hefur þróast í almenna uppbyggingu þekkingasamfélags og er nýjasta viðbótin opnun á frumkvöðlasetri. Með framtíðarsýn og fyrirsjáanleika hefur Háskólafélagið náð árangri. 

Fræðslunetið var stofnað árið 1999 og hefur vaxið mjög á starfstíma sínum og hefur í dag starfsstöðvar á fimm stöðum á Suðurlandi. Með fyrirsjáanleika og framtíðarsýn hefur Fræðslunetið orðið leiðandi í símenntun með fjölbreyttu námsframboði. 

Menntastofnanir eru grunnstoð hvers samfélags og öll skólastig eru mikilvæg. Sveitarfélagið Árborg á að leggja sig fram um að efla alla menntun í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið á m.a. að leggjast á árar með forsvarsmönnum FSU í að sækja fé til að bæta enn frekar húsakost iðnnáms og að efla það enn frekar. 

Barnaskólahús var reist á Selfossi árið 1932 við Sigtún. Árið 1944 er hafin bygging Sandvíkurskóla. Með framtíðarsýn og fyrirsjáanleika var haldið áfram að byggja upp grunnskóla á Selfossi. 

Barnaskólinn á Eyrarbakka var stofnaður árið 1852. Með framtíðarsýn og fyrirsjáanleika er sá skóli elsti starfandi grunnskóli á Íslandi. Sú framtíðarsýn og fyrirsjáanleiki sem skólinn bjó við í rétt um 150 ár, hefur verið frá honum tekin. 

Það þarf að staðfesta þá samfélagslegu ákvörðun að það séu ávallt starfandi leik- og grunnskólar í öllum þremur byggðunum í Árborg, þ.e. á Selfossi, á Eyrarbakka og á Stokkseyri. Þessi ákvörðun er ekki dálkur í Excel. Þessi ákvörðun er einfaldlega staðfesting á því að skóli er grunnstoð hvers samfélags.

Það þarf að greiða úr þeim mikla vanda sem nú er í grunnskólamálum á Selfossi. Það þarf að fá sjálfstætt starfandi skóla, bæði grunn- og leikskóla til að hefja starfsemi í sveitarfélaginu. Það þarf að vera samræmi á milli íbúafjölgunar og uppbyggingar á leik- og grunnskólum. Það þarf að veita frelsi og stuðning þannig að skólasamfélagið geti verið sem mest skapandi. Það þarf að tryggja að skólasamfélagið geti farið nýjar leiðir, geti markað sér sérstöðu og nýtt sem best alla þá styrkleika sem finnast innan leik- og grunnskóla í Árborg.

Ábyrgð sveitarfélagsins er mikil þegar kemur að leik- og grunnskólum. Þar skortir því miður bæði fyrirsjáanleika og framtíðarsýn. 

Comments are closed.