Árborg, breytingar í þágu hvers?

Lögð hefur verið fram tillaga um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Árborgar. Megin breytingin er að bæjarfulltrúum verður fjölgað um tvo, það er úr níu í ellefu. Mun breytingin ef samþykkt, taka gildi við næstu sveitarstjórnarkosningar, þ.e. í vor. Þessi breyting er vegna lagaskyldu og á grundvelli íbúafjölda sveitarfélagsins, það er íbúafjöldi er kominn yfir tíu þúsund manns.

Það er undir sveitarfélaginu komið hvort að þessi breyting er gerð á komandi ári eða eftir fjögur ár, það er árið 2026.

 

Árið 1987 var þingsætum á alþingi síðast fjölgað og þá um þrjú og urðu við það 63. Hefur fjöldi þingsæta staðið óbreyttur frá þeim tíma. Árið 1987 voru íbúar á Íslandi 244 þúsund. Í dag er íbúafjöldi á Íslandi 364 þúsund.

Þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um rúmlega 120 þúsund á þessum 34 árum, hefur ekki verið tekin ákvörðun um að fjölga alþingismönnum. Á þessum sama tíma og sérstaklega hin síðari ár, hefur verið gerð mikil bót á allri aðstöðu, aðgengi og stuðning við alþingismenn og enn er verið að bæta úr og gera betur. Allt eru þetta þarfar breytingar sem hafa gefið þingmönnum betri möguleika á að sinna starfi sínu.

Það er því athyglisvert að horfa til þess að áherslur alþingismanna gagnvart kollegum sínum í sveitarstjórnum lúti að því að fjölga beri kjörnum fulltrúum við það eitt að sveitarfélag nái ákveðinni stærð. Eitthvað sem ekki á við þegar kemur að alþingi.

Ætti bæjarstjórn Árborgar að taka sér alþingi til fyrirmyndar og að leggja á það áherslu að bæta starfsaðstæður kjörinni fulltrúa í stað þess að fjölga bæjarfulltrúum?

Ávallt þarf að sýna ráðdeild í rekstri sveitarfélags og það kostar að bæta við bæjarfulltrúum. Hér hafa bæjarfulltrúar tækifæri til að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er skynsamlegt að fresta því að auka útgjöld vegna reksturs bæjarstjórnar, alla vega fram til ársins 2026.

Þá er rétt að horfa til þess að nokkur sveitarfélög sem hafa verið í sömu stöðu og Árborg varðandi fjölgun bæjarfulltrúa hafa kvartað mjög yfir þessari breytingu og m.a. lagt á það áherslu að fjölgun bæjarfulltrúa eigi að vera sveitarfélagi valkvæð. Það eru sterk rök fyrir því að staldra við.

Í fyrirliggjandi tillögu er einnig lagt til að það sé fellt út að fundir bæjarstjórnar séu haldnir í Ráðhúsi Árborgar eins og kveðið er á um í núverandi samþykktum.

Sveigjanleiki er góður, en ráðhús er ráðhús. Ráðhús Árborgar er ráðhús sveitarfélagsins og það ætti að vera megin regla að í ráðhúsi sveitarfélags séu fundir bæjarstjórnar haldnir.

Varðandi aðgengi íbúa að fundum bæjarstjórnar að þá er það til fyrirmyndar að fundirnir eru sendir út í beinni útsendingu á netinu. Þarft er að sú breyting verði gerð hið fyrsta að útsendingin sýni „fundinn“ en ekki bara þann aðila sem er í pontu í það skiptið.

Með þeim tillögum sem liggja nú fyrir bæjarstjórn er bæjarfulltrúum heimilað að taka þátt í fundum bæjarstjórnar með rafrænum hætti. Sú kvöð er þó á að bæjarfulltrúinn þarf að vera staddur í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innan lands á vegum sveitarfélagsins til að geta nýtt sér þessa heimild. Það verður að teljast áhugaverður fundur, séu einn eða fleiri bæjarfulltrúar á TEAMS og aðrir bæjarfulltrúar á staðnum.

Vissulega þarf að þróa og breyta, COVID hefur haft mikil áhrif og sem betur fer eru fjarfundir mikið nýttir og slíkur möguleiki á að vera fyrir hendi. Það þarf þó að vera skýrt að megin reglan er að fundur bæjarstjórnar er haldinn í Ráðhúsi Árborgar og að þar eiga bæjarfulltrúar að sitja fund í eigin persónu eða varamenn þegar við á.

Það er í senn nauðsynlegt og eðlilegt að það sé heimild í samþykktum sveitarfélagsins til að halda fund bæjarstjórnar á TEAMS ef rík ástæða er til og aðstæður krefjast þess. Þá ætti slíkur fundur bæjarstjórnar að vera með þeim hætti að allir bæjarfulltrúar ættu að vera á TEAMS.

Samþykktir sveitarfélags eru mikilvægar, þær setja ramma og slá ákveðinn tón inn í vinnulag sveitarfélagsins. Það er því mikilvægt að samþykktir séu skýrar, skapi festu, bjóði upp á sveigjanleika og að sem breiðust sátt ríki um þær.
5m

Comments are closed.