Að fjárfesta í fortíð eða framtíð

Það vekur athygli þegar opinber stofnun auglýsir eftir tæpum tíu þúsund fermetrum miðsvæðis í Reykjavík fyrir skrifstofur og ætlar sér að  gera leigusamning til 30 ára. Maður spyr sig, er hér horft til hefða fortíðar eða tækifæra framtíðar?

Skatturinn er sá aðili sem er að leita að húsnæði og telur farsælast að koma öllu sínu starfsfólki á sama stað á sama tíma. Það sem er áhugavert er að staðsetningin sem valin er, er sú staðsetning sem erfiðast er að komast að og frá.  

Skatturinn er sá aðili sem stendur sig hvað best í rafrænni stjórnsýslu og er í raun öðrum til eftirbreyttni.  Þess frekar kemur þessi ráðstöfun á óvart.  

Með sameiningu stofnanna stendur Skatturinn á tímamótum.  Væri ekki heppilegra að þá væri horft til framtíðar í stað fortíðar.  

Er ekki tímabært að horfa á verkefni sem embættið þarf að láta sinna. Að aðilar geti tekið þau að sér og unnið, þar sem það hentar þeim sem vinnur verkefnið og á þeim tíma sem það hentar.  Er það virkilega betra að festa staðsetningu í miðbæ Reykjavíkur og aðeins þeir sem búa nógu nálægt þeim stað geta unnið og starfað á vegum Skattsins?

Er ekki tímabært að snúa hlutum við hjá hinu opinbera og segja að hámarki megi 30% starfa vera með fasta staðsetningu? Hætta að reyna að “þvinga störf á landsbyggðina” og frekar veita fólki frelsi og sveigjanleika við vinnu.  Það  gagnast öllum, hvar sem við búum.   

Nú er af miklum metnaði unnið að rafrænni stjórnsýslu hjá hinu opinbera og metnaðarfull verkefni í vinnslu.   Getur ekki ríkið/ríkisstofnanir hætt með allar þessar afgreiðslur mismundi aðila út um allt og einfaldað sitt verklag bæði fyrir sig og fyrir okkur sem þurfum á þjónustu að halda? Því er ekki bara ein þjónustuskrifstofa sem annast alla upplýsingagjöf og þjónustu fyrir alla opinbera aðila nákvæmlega eins og www.island.is er varðandi rafræna stjórnsýslu?

Það vakti athygli nýlega þegar fjallað var um kaup Reykjavíkurborgar á aðgangskortum fyrir starfsfólk á Vinnustofu Kjarvals.  Í umfjöllun um þá ákvörðun kom meðal annars fram;

Í samningi Reykjavíkurborgar við vinnustofuna er hún sögð „sérlega vel til þess fallin að taka á móti erlendum og innlendum viðskiptavinum, hitta samstarfsfólk vegna vinnu eða utan hennar, rækta tengsl við aðra eða sinna störfum sínum í næði frá dagsins önn.”

Er ekki lag fyrir ríkið að skoða hvort að það sé hagkvæmt að opna á möguleika ríkisstarfsmanna til að nýta slíka staði með sameiginlegu vinnurými? Með slíkum áherslum gæti ríkið skapað betri rekstrarlegar forsendur fyrir rekstri slíkra staða víðar um landið og aðrir gætu notið góðs af.  

Það verður gaman að sjá þegar Ríkiskaup auglýsir eftir; 30 skrifstofurýmum í Hveragerði, 12 á Eyrarbakka, 18 á Egilsstöðum, 15 á Höfn í Hornarfirði og 35 á Seltjarnarnesi. “Í boði er leigusamningur til 30 ára”. Nokkuð viss um að í þeirri nálgun myndu margir sjá tækifæri bæði launþegar og rekstraraðilar.  

Comments are closed.