Uppbygging í Árborg, næstu skref

Nú þegar uppbygging er að hefjast í Björkustykki er rétt að spyrja, hvað svo?

Eitt verðmætasta og mest spennandi land sveitarfélagsins er á milli þorpana við ströndina.  Þar eru mikil tækifæri til uppbyggingar bæði á atvinnu- og íbúðarhúsnæði.   

Þorpin við ströndina eru fjölmenn og einstök hvort á sinn hátt.  Það átta sig ekki allir á því að íbúar Stokkseyrar og Eyrarbakka eru fleiri en íbúar Blöndós og Bolungarvíkur.  Litlu þorpin tvö slaga upp í það að vera með jafn marga íbúa og Stykkishólmur. 

Þessi fjölmenna byggð þarf að fá að halda sínum sérkennum en á sama tíma að fá tækifæri til að njóta samlegðar og að opna á nýja uppbyggingu.  

Með því að hefja uppbyggingu á nýju þorpi sem heitið gæti „Hraun“ mitt á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar er hægt að gerbreyta forsendum byggðar við ströndina.  Þannig er hægt að efla byggðina og á sama tíma að virða og styrkja gömlu þorpin tvö.  

Hin nýja byggð yrði kjarni þorpana við ströndina, þar sem kjarnaþjónusta yrði byggð upp með viðeigandi íbúða-, þjónustu- og atvinnuhúsnæði.  Þannig gætu þorpin tvö haldið styrkleikum sínum og sérkennum en á sama tíma notið samlegðar og þeirra kosta sem fjölmennari samfélög geta boðið upp á. 

Tækifæri þorpana við ströndina hafa sjaldan verið meiri og fátt sem bendir til annars en að styrkur þeirra eigi aðeins eftir að aukast á komandi árum. 

Ef við horfum til umferðar og tengingar við höfuðborgina að þá er vegalengdin til Reykjavíkur nánast sú sama hvort heldur ekið er frá Selfossi um Hellisheiði eða frá Eyrarbakka um Þrengsli.  Stóri munurinn á þessum tveimur leiðum er sá að Hellisheiði er 374 m yfir sjávarmáli en Þrengslin eru 288 m yfir sjávarmáli.  Munurinn 86 metrar og það munar um minna þegar snjóar og vindar blása.  Þrengslin eru þannig veðurfarslega mun betri kostur fyrir þá sem þurfa reglulega að ferðast milli höfuðborgarinnar og Árborgar.  

Með nýrri brú austan við Selfoss sem fjármögnuð verður með vegtollum kemur einnig sá hvati að keyra frekar Þrengsli eða Suðurstrandarveg eftir því sem við á.  Hagur Árborgar er að fá umferð í gegnum bæjarfélagið.  Þannig verður Eyrarbakki og þorpin við ströndina í vaxandi mæli fyrsti viðkomustaður þeirra sem keyra inn í Árborg.  Á sama hátt þjónar það hagsmunum verslunar og þjónustu á Selfossi að umferð fari um Þrengsli og Suðurstrandarveg inn á Eyrarbakkaveg og áfram í „gegnum“ Selfoss.  

Ný brú austan við Selfoss mun hafa áhrif í og við Árborg, bara ekki á þann hátt sem að er stefnt.  

Það eru spennandi verkefni í skipulagsmálum í Árborg fyrir framan okkur, nýtum tækifærin við ströndina Árborg allri til heilla.  


Comments are closed.