Einelti er ofbeldi

Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis og ofbeldi á aldrei að þola.  Andlegt ofbeldi, líkmamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi er það ömurlegast sem nokkur manneskja getur beitt aðra manneskju og hefur áhrif á þolanda alla ævi.

Þegar einstaklingur er beittur kynferðisofbeldi þá erum við (næstum því) hætt að tala um að þolandi hafi nú boðið upp á þetta eða að ofbeldismaðurinn hafi verið svona eða hinsegin eða að honum sé nú vorkun vegna þess að …..

Af hverju verður umræðan með þessum hætti þegar kemur að einelti, sem er ofbeldi?

Væri eðlilegt að í kynferðisofbeldismálum væru haldnir sáttafundir, að markmiðið væri að vinna sig saman út úr stöðunni?  Er eðlilegt þegar kemur að kynferðisofbeldismálum að þolandi og gerandi séu áfram að vinna á sama vinnustaðnum, þó að ofbeldið hafi gerst í matartímanum og ekki inni á vinnustaðnum sjálfum?

Ég held að við séum komin mjög skammt á leið þegar kemur að eineltismálum, einelti er ofbeldi.

Það ofbeldi sem við sjáum stúlkur beita í myndbandi sem RÚV hefur sýnt og viðbrögð í málinu valda mér vonbrigðum.

Á ofbeldi/einelti á að taka strax og af mikilli festu.  Þeir einstaklingar sem beita ofbeldi, þeim á án tafar að vísa úr skóla og í úrræði sem ætti að vera rekið af Barnaverndarstofu.

Að þolandi þurfi að fara úr skóla vegna ofbeldis á að vera lokaúrræði og á ekki að gerast nema að það sé einbeittur vilji þolanda.  Þó að þolandi fari úr skóla, þá á það ekki að vera sjálfgefið að „ofbeldismenn“ geti farið aftur í sinn gamla skóla.

Ef það er raunverulegur vilji til þess að vinna markvisst gegn einelti/ofbeldi þá verður að gera það af festu og mjög afdráttarlaust.  Þolandi á að fá allan nauðsynlegan stuðning og hans hagsmunir eiga undir öllum kringumstæðum að vera í forgang.

Sá sem beitir einelti er ofbeldismaður alveg sama á hvaða aldri hann er.

Ofbeldismaður þarf úrræði til betrunar, úrræðin eiga að vera misjöfn eftir aldri og aðstæðum til að hægt sé að ná sem bestum árangri.

 

 

Comments are closed.