Jafnrétti

Screen Shot 2016-01-16 at 22.23.05Grein sem ég ritaði í Morgunblaðið, þar sem ég velti fyrir mér Jafnrétti.

____________________________________________________

Fyrir mér er jafnrétti, jafn réttur allra einstaklinga.

Ég hef að undanförnu velt því fyrir mér hvort að ég hafi misskilið hugtakið „jafnrétti“.

Sveitarfélög eru samkvæmt lögum skyldug til að gera jafnréttisáætlun til fjögurra ára.  Sem sveitarstjórnarmaður vann ég að því að gera slíka áætlun ásamt félögum mínum í sveitarstjórn.  Byggt var á góðum grunni þar sem var forgangsraðað, markmið voru sett og aðgerðir ákveðnar.  Útkoman var metnaðarfullt skjal sem var samþykkt samhljóða.

Það sem situr eftir er að jafnrétti er skilgreint út frá körlum og konum og þá sérstaklega til að tryggja jafnrétti kvenna.

Þetta kom mér á óvart, ég hélt að jafnrétti væri „stærra hugtak.“

Því ákvað ég að kynna mér starfsemi Jafnréttisstofu og með því að skoða heimasíðu stofnunarinnar virðist ljóst að hlutverk hennar er að tryggja jafnrétti karla og kvenna.

Jafnréttisstofa var svo hugulsöm að senda mér jólakveðju, þar segir; Jafnréttisstofa þakkar þér samstarfið á árinu og óskar þér árs og friðar.

Svo er textinn á ensku og þar segir; The Center for Gender Equality in Iceland wishes you a Merry Christmas and a Happy New Year.

Hin íslenska Jafnréttisstofa er erlendis stofnun kynjajafnréttis (Gender Equality), en jafnréttis á Íslandi!

Hlutverk Jafnréttisstofu ætti að vera að vinna að því að tryggja jafnan rétt allra þjóðfélagsþegna og það sama ætti að vera þegar kemur að jafnréttisáætlunum sveitarfélaga.  Slík Jafnréttisstofnun væri ein mikilvægasta stofnun samfélagsins.

Ég held að það hamli jafnrétti að umræðan takmarkist við kynbundið jafnrétti.

Hópar samfélagsins eru margir og fólk á að fá að vera fólk – samkynhneigðir, aldraðir, ungt fólk, eldra fólk, börn, fólk með fötlun, fangar, nemendur, sjúklingar, íbúar í dreifbýli, innflytjendur, transfólk, trúarhópar, íbúar í þéttbýli, efnað fólk, fátækt fólk o.s.frv.

Að mínu mati ætti sem minnst að fjalla um kyn þegar kemur að jafnrétti.  Við búum í fjölbreyttu samfélagi sem samanstendur af mörgum ólíkum hópum og það er okkar að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt allra hópa á öllum sviðum samfélagsins.

Það er eðlilegt að jafnréttislög endurspegli það, en Jafnréttislög heita reyndar; lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Er eðlilegt að jafnréttislög snúist um kyn?

Það er eðlilegt að breyta núverandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í „jafnréttislög“.  Bæta þarf inn nokkrum orðum s.s. einstaklingur og hópar og taka út konur, karlar og kyn.  Þetta er auðvelt eins og sjá má með því að breyta lítilega markmiðsgrein núgildandi laga;

Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu (einstaklinga) kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Markmiði þessu skal náð m.a. með því að:

  1. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
  2. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
  3. bæta sérstaklega stöðu kvenna (minnihlutahópa) og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
  4. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
  5. gera bæði konum og körlum (einstaklingum) kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
  6. efla fræðslu um jafnréttismál,
  7. greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni (ólíkum hópum samfélagsins),
  8. efla rannsóknir í kynjafræðum (jafnréttisfræðum),
  9. vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,
  10. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. hópa samfélagsins.

Hvernig getum við talað um jafnrétti á öðrum grunni en þeim að tryggja jafnan rétt allra einstaklinga?

Comments are closed.