Eitt land – ekkert sveitarfélag

Ísland er eitt kjördæmi, á Íslandi eru ekki sveitarfélög, á Íslandi er sami réttur fyrir alla íslendinga óháð búsetu.  Þetta væri væntanlega fyrirkomulagið ef menn kæmu að því verkefni að búa til stjórnskipulag og væru ekki fastir í fjötrum fortíðar.

Þjóð sem telur um 300 þúsund manns er í raun aðeins þolanleg stærð sveitarfélags í flestum löndum.  Myndi einhverjum detta í hug að færa fyrir því rök að rétt væri að brjóta þessa litlu einingu upp í tæplega 80 einingar, sem hver og ein myndi reka sýna eigin stjórnsýslu með tilheyrandi kostnaði.  Að þessar litlu einingar myndu taka að sér fleiri og fleiri verkefni sem menn vita að þau ráða ekki við og því væru sett upp þjónustusvæði, sem í raun tækju yfir verkefnin.

Þjónustusvæðin lifa svo „sjálfstæðu lífi“ og þar er ekki nein/mjög takmörkuð pólitísk ábyrgð, ákvarðanir teknar varðandi þjónustu í sveitarfélagi án þess að jafnvel kjörnir fulltrúar þess sveitarfélags eða starfsmenn sveitarfélagsins hafi nokkuð um það að segja.

Þjónustusvæðavæðingin er komin á flug og mun fá aukin byr undir báða vængi þegar flutningur málefna aldraðra fer yfir á herðar sveitarfélaganna – sem verður í raun til þjónustusvæðanna eins og var raunin með flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

Er þetta sú lýðræðisþróun sem við viljum, þ.e. að búið sé til stjórnsýslustig sem hefur mikil völd og mikla ábyrgð en þarf ekki að svara neinni pólitískri ábyrgð?  Máttur íbúanna og jafnvel kjörinna fulltrúa er mjög takmarkaður varðandi það að knýja á um breytingar þegar verkefnin eru komin til þjónustusvæðanna.

Í dag á að velta upp möguleikum og spyrja spurninga.  Hvað kostar það samfélagið að reka allan þennan fjölda sveitarfélaga?  Er betra að sameina sveitarfélög í stórum stíl á tímum niðurskurðar og skera þannig niður í yfirstjórn og halda í stað þess uppi öflugri þjónustu fyrir íbúana?  Er það ásættanlegt að viðmið þess að flytja verkefni til sveitarfélaga sé stærð og vilji Reykjavíkurborgar?  Er öryggisnet og stuðningur til íbúa þessa lands betur tryggt hjá einum aðila (ríkinu) eða með því að verkefnunum sé dreift á yfir 80 aðila, þ.e. sveitarfélög og þjónustusvæði?

Ef menn telja að það sé rétt og hagkvæmt að hafa sveitarfélög á Íslandi og að sveitarfélögin eigi að taka að sér aukin verkefni þá á að byrja á því að tryggja að sveitarfélögin séu af þeirri stærð að þau geti tekið þessi verkefni að sér.  Sú leið sem nú er farin fótum treður lýðræðið og það í skjóli þess að verið sé að efla nærþjónustu.