Grein rituð í tímaritið Arkitektúr, mars 2010

Eitt af því sem sjálfbær samfélög um víða veröld eiga sameiginlegt er að þau eru brautryðjendur nýrra hugmynda, staðir þar sem samfélög reyna nýja hluti, þróa þá og bæta.  Þessar nýju hugmyndir hafa svo oft verið teknar upp og þróaðar áfram í hinu stærra samfélagi.

Sólheimar hafa vissuleiga rutt brautina á mörgum ólíkum sviðum.  Þeir eru fyrsti staðurinn í veröldinni til að bjóða fötluðum og ófötluðum einstaklingum saman upp á félagslegt úrræði.  Sólheimar er einnig fyrstur staða á norðurlöndum til að taka upp lífræna ræktun og rutt  brautina í meðhöndlun á lífrænum úrgangi, ferli sem sveitarfélög hafa síðan tekið upp.  Öfug blöndun (þ.e. þar sem samfélag er byggt upp á grunni minnihlutahópa og almenning blandað inn í samfélagið, hið gagnstæða við hefðbundna blöndun)  hefur einnig verið brautryðjandaverkefni á Sólheimum og við höfum einnig verið fyrstir og einir aðila sem sett hafa upp náttúrulegt hreinsivirki fyrir skolp á Íslandi og áfram má telja.

Sólheimar hafa í rúman aldarfjórðung unnið með ASK arkitektum að því að prófa og þróa umhverfisvænar byggingar.  Það sem hefur skipt Sólheima mestu máli í þróun byggðarinnar er að húsakostur sé vel hannaður, vel byggður og að byggingarnar falli vel að samfélaginu, hvort heldur það er að utan eða innan.

Margt hefur verið reynt og flest hefur gefist vel; torfþök sett á hús og geitum beitt á þau, byggingar einangrað með pappír og ull og áfram mætti telja.  Við hönnun húsa hefur verið tekið mið af því að þarfir samfélagsins breytist og hafa t.d. þau hús sem vinnustofur Sólheima eru í verið byggð upp einfalt þannig að hægt sé að stækka og minnka rými eftir þörfum.  Heildræn hugsun í hönnun er mikilvæg og hefur sá sveigjanleiki skapað fjölda tækifæra og hægt er að breyta húsnæði á einfaldan hátt með lágmarksröskun, litlum kostnaði og lágmarks efnisnotkun.

Að innan hafa sum hús verið „lasseruð“, þ.e. máluð samkvæmt kenningum Rudolf Steiner þar sem sérstakur gaumur er gefinn að notkun hvers rýmis og með því á meðvitaðan hátt skapað viðeigandi „andrúmsloft“.

Sesseljuhús er höfuðbygging umhverfisvænna bygginga ekki bara á Sólheimum heldur einnig á Íslandi.  Byggingin er einstök og fór mikil vinna í alla hönnun þeirrar byggingar og komu margir að, bæði innlendir og erlendir aðilar.  Þar var heildræn hugsun höfð í öndvegi og tel ég víst að ekki hafi aðrar byggingar á Íslandi verið hannaðar m.t.t. niðurrifs!  Efnisval, hönnun og frágangur var þannig unninn að hámarks endurnýting geti orðið á öllu því efni sem í bygginguna fór auk þess sem auðvelt verður að endurheimta lóðina.

Sesseljuhús er í dag umhverfissetur þar sem fjölbreytt fræðslustarf fer fram fyrir skóla og almenning auk þess sem í húsinu er háskólasetur þar sem Bandarískir nemendur dvelja í eitt misseri sem hluta af námi sínu. Nám þeirra á Íslandi heitir „Sustainability through community“ og er metið til háskólaeininga.

Mikið hefur verið unnið í umhverfi Sólheima og markvisst unnið að því að þróa umhverfið í takt við þau gildi sem Sólheimar starfa eftir.  Ýmsir hafa komið að þeirri vinnu bæði heimamenn og sérfræðingar.  Fyrsta heildræna deiliskipulag fyrir Sólheima var unnið af Ragnhildi Skarphéðinsdóttur, landslagsarkitekt, en síðustu ár hefur Birkir Einarsson, landslagsarkitekt, haft yfirumsjón með þeirri vinnu. Ráðgjafafyrirtækið ALTA hannaði síðan nýjasta íbúðarhverfið og var það hannað með vistvæn gildi að leiðarljósi.

Í þeirri deiliskipulagsvinnu voru leiðarljósin fimm:

  • Náttúran: náttúrunni verði sýnd virðing og leitast við að vernda náttúrulega ferla eins og unnt er.
  • Samfélagið: samheldið og fjölbreytt samfélag þar sem ríkir traust og virðing milli manna og íbúum og gestum líður vel.
  • Atvinnulífið: atvinnustarfsemi verði byggð á lífrænni ræktun, garðyrkju og matvælaframleiðslu, handverki og iðnaði úr náttúruafurðum, auk náttúru- og heilsutengdri ferðaþjónustu.
  • Menningarlífið: öflugt menningarlíf tengt fjölbreyttum listgreinum ásamt umhverfistengdri fræðslustarfsemi, sem styrkir tengsl samfélagsins bæði inn á við og út á við.
  • Byggðin.  i) vistvæn byggð þar sem tengsl náttúru, mannlífs og byggðar eru sterk, ii) fallegt hverfi með skýra og jákvæða ímynd sveitaþorps sem einkennist af gróðursæld, aðlaðandi útfærslu opinna rýma, auk mannvirkja sem falla vel inn í landslagið, iii) rými fyrir atvinnuhúsnæði og vinnustofur þannig að atvinnustarfsemi geti dafnað og iv) kjörnar aðstæður til útivistar og samveru sem stuðla að heilbrigði og vellíðan íbúa.

Það sem er íbúum Sólheima sérstaklega mikilvægt er:

  • Að skipulagið stuðli að vellíðan og heilbrigði íbúa, t.d. með því að stuðla að hreyfingu, útivistarmöguleikum, nálægð við náttúru og fallegu umhverfi.
  • Að skipulagið stuðli að samkennd og samheldni í Sólheima-samfélaginu, t.d. með því að blanda saman húsagerðum og félagshópum, gera ráð fyrir samkomustöðum og sameiginlegum rýmum og tryggja að Sólheimahverfið verði áfram ein heild en ekki aðskilin hverfi.
  • Að skipulagið stuðli að vistvænni og friðsælli byggð, t.d. með því að með því að vera gönguvænt, lágmarka þörf á notkun bifreiða og nota vistvæn efni við byggingar og umhverfismótun.
  • Að skipulagið verði sveigjanlegt til framtíðarþróunar, t.d. með því að gera ráð fyrir mögulegri stækkun hverfisins til norðurs síðar.

Meðal þess sem alltaf hefur verið gætt er að setja ekki upp neinar girðingar í byggðinni sem er mikilvægt atriði í að skapa þá einstöku umgjörð sem á Sólheimum er.  Fyrir um 10 árum síðan var sú ákvörðun tekin að allar nýbyggingar yrðu með torfþaki, yrðu ekki hærri en 1 til 2 hæðir og að litatónar þaka og húsveggja verði samræmdir.

Aðkomur að Sólheimum hafa verið hannaðar upp á nýtt með það að meginmarkmiði að draga úr umferð inn í byggðina.  Auk þess er verið er að hanna nýtt leiksvæði og hugmyndavinna er í gangi með nýja „náttúrulega“ sundlaug, sem verðu sniðin inn í umhverfið á náttúrulegan hátt.

Sjö garðsvæði eru í mótun og eru framkvæmdir við fimm þeirra komnar vel af stað. Garðar Sólheima munu í framtíðinni setja sterkan svip á samfélagið, fegra staðinn og auka lífsgæði íbúa Sólheima og þeirra sem heimsækja staðinn. Þó garðarnir séu ólíkir verða þeir byggðir upp sem ein heild. Þessir sjö garðar eru:

  • Höggmyndagarður sem var formlega opnaður á 70 ára afmæli Sólheima árið 2000. Í garðinum eru 10 afsteypur listaverka eftir  frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar frá 1900 til 1950 eða frá Einari Jónssyni til Gerðar Helgadóttur. Stefnt er að því að bæta við 2 til 4 verkum fyrir árið 2015.  Stefnt er að því að í framtíðinni verði að finna eitt verk eftir alla helstu íslenska myndhöggvara á síðustu öld.
  • Ljóðagarður en þar er að finna skilti með ljóðum eftir Matthías Johannessen og Þórarinn Eldjárn. Ljóðaskiltin vekja verðskuldaða athygli enda fjalla þau bæði um Sólheima. Stefnt er að því að setja upp tvö til fjögur ný ljóðaskilti fyrir árið 2015.
  • Trjágarður sem inniheldur trjásafn Sólheima var formlega opnað 5. júlí 2005, á 75 ára afmæli staðarins. Í garðinum eru um 50 tegundir trjáplantna og er garðurinn lífrænt vottaður. Unnið er að stækkun garðsins og er miðað við að bæta við a.m.k.5 nýjum tegundum á hverju ári.
  • Orkuarður sem áætlað er að reisa við Sesseljuhús. Fyrsti hluti hans var opnaður sumarið 2009 með fræðsluefni í miðstöð garðsins í Sesseljuhúsi. Utandyra  verður komið fyrir upplýsingaskiltum við hvern orkugjafa og göngustígar munu tengja saman sýningarsvæði mismunandi orkugjafa í eina heild. Utandyra verður hægt að skoða og kynna sér eftirfarandi orkugjafa:
    • Sólarorku en nú þegar hafa verið settar upp sólarsellur á þaki Sesseljuhúss.
    • Vindorku og hefur vindmylla verið reist á Sólheimum rétt við Sesseljuhús.
    • Jarðvarmi en Sólheimar reka eigin hitaveitu.
    • Vatnsorka í tengslum við smávirkjun sem komið verður upp í bæjarlæk Sólheima.
    • Líforka en hún er bundin í fallegum skógi en þar er einnig að finna jarðgerðarvél sem forvinnur lífrænar leifar til áburðar.
  • Garður lífsins en þar er ráðgert fagna nýju lífi með gróðursetningu trés fyrir hvert barn sem fæðist með lögheimili að Sólheimum.
  • Kirkjugarður sem hannaður hefur verið við kirkjuna og er fyrsti áfangi framkvæmdarferils hafinn með landmótun. Kirkjugarðinum og garði lífsins verður  komið fyrir hlið við hlið sem gerir þá einstaka þar sem þar verður samtímis hægt að minnast þeirra sem gengnir eru og þeirra sem eru að hefja sitt líf.
  • Jurtagarður sem er í hönnunarferli en þar á að rækta, te, krydd og lækningajurtir.

Annað sem viðvíkur skipulagi staðarins er t.d. heimagerðir ljósastaurar í mismunandi stærðum við göngustíga. Einnig er verið að skipta út hefðbundnum hvítum fánastöngum fyrir íslenskar viðarstangir og rækta upp skjólbelti til verndar byggðinni.  Skógrækt er stunduð til þess að auka útivistarmöguleika, flóru og fánu og er unnið jafnt og þétt að því að bæta aðgengi, fjölga göngustígum, framleiðsla aukin á matvælum, hvort sem það er í matjurtum eða í bakaríi.

Erlendir háskólanemar og íslenskir námsmenn á öllum aldri, sjálfboðaliðar, íbúar og gestir Sólheima hafa einstakt tækifæri til að upplifa samfélag sem er einstakt og það sem er mikilvægast, taka sína upplifun af Sólheimum og gera að sinni til að bæta sitt eigið umhverfi og gera það lífvænlegra.

Vegferð Sólheima að sjálfbærni hefur nú staðið í rétt tæp 80 ár og er langt frá því að vera lokið, ávallt má gera betur en það er á okkar ábyrgð að halda áfram reyna nýjar hugmyndir og leiðir á öllum sviðum.

Comments are closed.