Umfjöllun um kynferðisbrot

Nýlega voru fluttar fréttir af kynferðisbroti sem ítrekað var tengt Sólheimum.  DV opnar málið og aðrir fjölmiðlar (MBL, visir & RUV)  fylgja í kjölfarið.  Margt er sagt;

„Lögreglan er með til rannsóknar kynferðisbrot gegn fatlaðri konu á Sólheimum“

„meint kynferðisbrot gegn vistmanni á Sólheimum“

„lögregla staðfestir að vistmaður á Sólheimum eigi í hlut og að meintur gerandi sé óviðkomandi staðnum“.

„Lög­regl­an á Sel­fossi hef­ur nú til rann­sókn­ar ábend­ingu um meint kyn­ferðis­brot gegn fatlaðri konu sem dvel­ur á Sól­heim­um“

„Ábend­ing­in barst ekki frá starfs­manni Sól­heima. Maður­inn, sem grunaður er um að hafa brotið gegn kon­unni, er ekki starfsmaður staðar­ins og teng­ist hon­um held­ur ekki“.

„Þá er ekki vitað hvar meint brot á að hafa verið framið“.

MBL fylgir svo málinu eftir í dag og segir frá því að búið sé að yfirheyra brotaþola og meintan geranda vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti gegn fatlaðri konu sem dvelur á Sólheimum.

Afhverju snýst umfjöllunin um brotaþola, búsetu viðkomandi og aðstæður?  Með því að segja frá því að viðkomandi sé fatlaður og búi á Sólheimum, þá er i raun búið að nafngreina um það bil 5 fatlaðar konur fyrir það eitt að búa á ákveðnum stað sem þolendur kynferðisofbeldis.  Er það forsvaranlegt, nei það er það ekki.

Afhverju nálgast fjölmiðlar málið út frá þessu sjónarhorni, því er gengið svona langt í upplýsingagjöf (hvort sem upplýsingarnar eru réttar eða rangar), er það hugsunarleysi, er það vegna þess að viðkomandi er kona, er það vegna þess að viðkomandi er fatlaður?  Afhverju er verið að nota orðið „vistmaður“ fatlað fólk er ekki vistað á Sólheimum frekar en í Árborg eða annars staðar þar sem fólki með fötlun er veittur stuðningur?

Í umfjöllun kemur þannig fram að meintur gerandi er óviðkomandi Sólheimum, ábendingin kom ekki frá starfsmanni Sólheima og ekki er vitað hvar meint brot á að hafa verið framið.  Þrátt fyrir það er nafn Sólheima þráfaldlega nefnt sem hefur þær einu afleiðingar að um það bil 5 fatlaðar konur eru í raun með þessari nálgun nafngreindar sem þolendur kynferðisofbeldis.

Ef fjölmiðlar myndu nálgast málið út frá gerandanum, þá væri fréttin eitthvað á þessa leið, ef samræmis væri í raun gætt;

Karlmaður um „sextugt“ sem búsettur er „austurbænum“ á Selfossi er grunaður um kynferðisbrot gagnvart fötluðum einstakling.  Lögreglan staðfestir þetta og að umræddur maður starfi ekki hjá félagsþjónustu Árborgar.   Ábending um hið meinta kynferðisbrot kom ekki frá starfsmanni Árborgar.

Það er ég viss um að ef fjölmiðlar hefðu flutt fréttina með þessum hætti að þá hefði mörgum brugðið og talið þetta óásættanlega nálgun.

Kynferðisbrot eru alltaf alvarleg og þeim ber að taka alvarlega.  Það að brotið sé á fötluðum einstakling segir ekkert um hinn fatlaða en allt um gerandann.

Ef kynferðisbrot er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Selfossi þá hefur meint brot væntanlega átt sér stað á Suðurlandi og að tilgreina að einstaklingur sé með fötlun er umhugsunarvert, því fötlun er hugtak sem meðal annars nær yfir hreyfihamlaða, blinda og einstaklinga með þroskafrávik og því spurning hvaða tilgangi það þjónar að tilgreina að einstaklingur sé fatlaður?

Hvað tilgangi þjónar það að segja frá því hvar viðkomandi býr?

Áherslur okkar eiga að beinast að því að veita þolanda stuðning og  vernd.

Vonandi sjáum við fram á breytta tíma í umfjöllun fjölmiðla í kynferðisbrotamálum.

 

 

 

Comments are closed.