Tímamót

í dag var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að færa skólann heim.

Þetta eru einstaklega góð tíðindi og eitt það besta við þessa breytingu er að það er breið samstaða um ákvörðunina.

Málið hefur lengi verið til umfjöllunar í sveitarfélaginu og hefur verið djúpstæður ágreiningur um það. Með tíma, skólaþingi og faglegri vinnu hefur náðst breið samstaða.

Það er í mínum huga mjög mikilvægt að málið hafi unnist með þessum samstillta hætti, því það hjálpar mjög mikið við að framkvæmdin verði farsæl.

Einnig var ákveðið að draga það ekki að fara í framkvæmdina, enda rökrétt að á tíma umbreytinga í skóla- og leikskólamálum í sveitarfélaginu að klára stóru málin og vinna svo að góðu jafnvægi og uppbyggingu á heildstæðum skóla.

Það vakti athygli að einn sveitarstjórnarmaður greiddi atkvæði gegn því að skólinn færi heim.  Hörður Óli bókaði eftirfarandi;

Samstarf í skólahaldi hefur gengið vel hingað til og er það miður ef ekki verður slíkt áfram. Helst eru það tengsl nemenda og foreldra sem rofna við þessa breytingu. Félags- og tómstundastarf unglinganna kemur því til með að breytast , breidd valgreina hverfur alveg, hópar minnka mikið og tengsl við nágranna samfélög rofna.

Þetta mælir sá sem hvað mest hefur lagt til félagsstarfs barna og unglinga í sveitarfélaginu síðustu ár.  Að sjálfsögðu á að hlusta á þessar ábendingar, það þarf að horfa til þess sem fram kom á skólaþingi og tekið er saman í skýrslu Capacent sem bráðlega verður opinber íbúum sveitarfélagsins.  Við þurfum einnig sem foreldrar, íbúar sveitarfélagsins, nemendur, kennarar og starfsfólk Kerhólsskóla að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem þessi breyting hefur í för með sér.

Við þurfum í sameiningu að tryggja að við eflum starf Kerhólsskóla og félagsstarf barna og unglinga.  Um þetta var sveitarstjórn sammála og bókaði eftirfarandi;

Sveitarstjórn leggur áherslu á að huga sérstaklega að félagsstarfi samhliða þessari breytingu og beinir því til fræðslu- og æskulýðs- og menningarmálanefndar að koma með tillögur til sveitarstjórnar um fjölbreyttar leiðir til eflingar félagsstarfs barna og unglinga í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að horfa til skýrslu Capacent sem var unnin upp úr skólaþinginu og huga sérstaklega að tengslum og samvinnu við nágrannasveitarfélög.

 

 

 

 

Comments are closed.