Þarf ríkið ekki að fara að samningum?

Nýverið féll dómur þar sem Hæstiréttur snéri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi íslenska ríkinu í vil í máli sem Sólheimar höfðuðu gegn íslenska ríkinu.

Mál þetta er í eðli sínu einfalt, Sólheimar og velferðarráðuneytið höfðu gert með sér þjónustusamning þann 8. maí árið 2004, samning sem rann út þann 31. desember árið 2008.  Áður en samningur aðila rann út óskuðu Sólheimar eftir því með formlegum hætti að samningurinn yrði framlengdur, því erindi var ekki svarað.

Sólheimar héldu áfram að veita þjónustu á grundvelli samningsins og með vilja ráðuneytisins, en samningurinn var um þjónustu við fólk með fötlun.  Það hvarflaði aldrei að forsvarsmönnum Sólheima að tilkynna þeim einstaklingum sem málið varðaði að þeir ættu að yfirgefa heimili sín og að þeir fengju ekki þjónustu sökum þess að samningur milli ráðuneytisins og Sólheima væri ekki lengur í “gildi”.

Í öllum atriðum var því unnið áfram eins og samningur milli aðila væri í “raun” í gildi.  Aðeins eitt breyttist um leið og samningurinn “féll úr gildi”, þá var fjárveiting sú sem samningurinn grundvallaðist á lækkuð um 4% eða um 11 milljónir króna.

Við þá ákvörðun gerist tvennt, annars vegar á sér stað mismunun enda voru Sólheimar einir þjónustuaðila í málefnum fatlaðra skertir.

Hins vegar gerist það að ríkið telur sig óbundið af samning aðila og skerðir einhliða fjárveitinguna, þó svo verið sé að veita sömu aðilum sömu þjónustu.

Það er ekki aðeins niðurstaða Hæstaréttar að ríkinu sé þetta heimilt, heldur er Sólheimum einnig gert að greiða 1,5 milljón í málskostnað ríkisins.

Það er athyglisvert að skoða Ábendingu frá Ríkisendurskoðun frá því í júní 2011 um skuldbindandi rekstrar- og þjónustusamninga ríkisins.

Í umræddu skjali Ríkisendurskoðunar segir;

“að það veki athygli að af þeim 116 samningum sem greitt er samkvæmt á árinu að þá séu 33 eða 28% allrar samninga útrunnir.  Enn er þó starfað samkvæmt þeim, flestir þessa samninga runnu út árið 2010 en allmörg dæmi eru um samninga sem giltu til 2005-09 og einn sem gilti fram á mitt ár 2001.”

Staðan er því sú að ríkið og samfélagið allt gerir þá kröfu að sjálfstæðir þjónustuaðilar veiti þjónustu og standi við allar sýnar skuldbindingar, hvort sem það eru “gildir” samningar á milli aðila eða ekki.

Sé samningur “útrunninn” þá getur ríkisvaldið eftir dóm Hæstaréttar skert eða breytt fjárveitingu einhliða á sama tíma og gerð er krafa um óbreytta þjónustu hjá sjálfstæðum rekstraraðila.

Það er nauðsynlegt að Alþingi taki mál þetta upp, þó ekki nema fyrir það að hér er um mikla fjármuni að ræða, en skuldbindingar ríkisins vegna útrunninna rekstrar- og þjónustusamninga nema 33 milljörðum króna á tímabilinu 2011-14.  Ekki er um að kenna áhugaleysi sjálfstæðra rekstaraðila, heldur hefur ríkið dregið lappirnar í þessu máli og hefur það viðgengist í allt of mörg ár.

Ráðherrar og þingmenn eru fljótir til eins og sannast í máli sjálfseignarstofnunarinnar Eyrar og þá er farið að fullyrða um alla aðila út frá einum.  Þau orð stjórnmálamanna hefðu vissulega meira vægi ef þeim væri af sama krafti beint að framkvæmdavaldinu og því verklagi sem þar viðgengst.

Það er ekki þolandi hvorki fyrir sjálfseignarstofnanir né fyrir meðferð á almannafé að unnið sé árum saman samkvæmt útrunnum rekstrar- og þjónustusamningum.  Það væri vissulega jákvætt að sjá ríkisvaldið fara að ábendingum Ríkisendurskoðunar og koma sínum málum á hreint áður en fullyrt er um alla út frá einum.

Comments are closed.