Ráðuneyti lífsgæða

Ég fór fyrir nokkru í lærdómsríka fræðsluferð til Skotlands með sveitarstjórarmönnum.

Margt fróðlegt og lærdómsríkt heyrðum við og sáum.

Í þeirri ferð var m.a. sagt; „Hlutverk þess sem rekur spítala er að reka spítala, ekki að bæta heilsu fólks“.

Mér þótti þessi athugasemd „köld“, en ég hef oft hugsað um þessi orð og velt þeim fyrir mér.

Ég held að þrátt fyrir allt að þá sé þetta rétt.

Við þurfum að aðskilja hlutina og vera ávallt með á hreinu mismunandi hlutverk aðila.

Í dag er umræðan þannig að allt tal um heilbrigðisþjónustu snýst um fjármagn til Landsspítala.

Landsspítalann vantar 1 milljarð strax og X marga milljarða á næsta ári.  Svona er umræðan og svona hefur hún verið.   Umræða um heilbrigðisþjónustu snýst meira og minna aðeins um Landsspítalann og fjármagn til hans.

Það þarf að stíga út úr veruleika „reddinga“ og kerfis með illa skilgreint hlutverk.  Það þarf að horfa heildstætt á hlutina og þar er oft verkaskipting ríkis og sveitarfélaga ekki að hjálpa til.  Ef við horfum aftur til Skotlands þá kom fram að 1 pundi varið til stuðnings við barn, sparar 9 pund í „stuðning“ við fullorðinn einstakling.

Það er ekki ástæða til að ætla annað en að hlutfallið sé svipað hérlendis.  Þó svo þessir opinberu aðilar hafi gagnkvæma hagsmuni er þó veruleikinn sá að hvor hugsar um sig og sveitarfélögin eru ekki sérstaklega að leggja til fé til að spara ríkinu kostnað og öfugt.

Við höfum haft ráðuneyti, félagsmála- heilbrigðismála og velferðarmála.  Máski er tímabært að nálgast mál út frá lífsgæðum.

Í stað þess að vera ávallt í nauðvörn að fást við afleiðingar, þá höfum við tækifæri til að byggja upp ef við nálgumst hlutina út frá lífsgæðum.

Spurningarnar breytast, hvernig fækkum við þeim sem þurfa á læknisþjónustu að halda?  Það eru mestu lífsgæðin að hafa það góða heilsu að við þurfum ekki á þessari þjónustu að halda.

Við þurfum auðvitað að hafa framúrskarandi góða læknisþjónustu, sem er í senn vel tækjum búin og getur greitt góð laun.

Umræðan í dag snýst aðeins um skort á fjármagni inn í heilbrigðisþjónustunna – það er ekki raunverulega vandamálið – vandamálið er að það eru allt of margir sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.

Með því að nálgast verkefnið út frá lífsgæðum, þá verður mikilvægar að vinna að forvörnum en afleiðingum sem eru heilsubrestur og veikindi bæði andleg og líkamleg.

Við eigum að horfa heildstætt á hlutina og þá horfum við t.d. á skipulagsmál sem hluta af lífsgæðum okkar sem og aðgang að hollum og helst lífrænt vottuðum matvælum.

Árangur er mældur í fækkun „sjúklinga“ og fjölda þeirra sem stunda reglulega hreyfingu.

Við horfum á leiðir til að auka virkni og félagslega þáttöku allra þjóðfélagshópa, við ræðum um einmanaleika og finnum leiðir til að vinna gegn honum í stað þess að takast á við afleiðingarnar.

Í stað þess að sækja milljarða í að byggja fangelsi, þá setjum við hunduði milljóna í að fækka þeim sem fara í fangelsi, þannig aukum við lífsgæði.

Við horfum á alla þætti samfélagsins, leikskólagjöld og stuðning við eldri borgara.  Er bóta- og stuðningskerfi samfélagsins að byggja upp og efla lífsgæði eða brjóta niður?

Fram kom í umræddri ferð til Skotlands að 40% af fjármagni sveitarfélaga (þekki ekki hvernig það er hjá ríkinu) er varið til neikvæðra hluta, þ.e. að bregðast við vanda eftir að hann er kominn upp.

Það kæmi mér ekki á óvart að þetta hlutfall væri svipað hjá ríki og sveitarfélögum og vafalaust er ástandið svipað á Íslandi og í Skotlandi.

Þessu þurfum við að breyta.

Er ráðuneyti lífsgæða og sú breytta hugsun sem ætti að fylgja því leið til að breyta þeirri stöðu sem við erum í?

 

 

 

 

 

Comments are closed.