Opið bref til félagsmálaráðherra

Ágæti  félagsmálaráðherra.

Staða Sólheima er mjög alvarleg.  Eins og þér er kunnugt  hefur hvorki þú né ráðuneyti félagsmála gert nokkurn hlut til þess að laga þá stöðu né tryggja íbúum Sólheima það öryggi sem þeir kalla  eftir.

Fulltrúaráð Sólheima hefur sent út ákall um að úr málum verði leyst, ákall sem undirrituðum var falið að fylgja eftir.  Hvað gerist? Ráðuneytið og ráðherra ráðast persónulega á undirritaðan og ráðuneytið fer með rangt mál í yfirlýsingum sínum.  Efnislegt svar, nei.

Framkvæmdastjórn Sólheima sendir þér bréf dagsett 2. nóvember.  Hvað gerist? Bréfi ekki svarað.

Einstaklingar í fulltrúaráði Sólheima og aðstandendur óska eftir fundi með þér. Hvað gerist?  Þeim er ekki svarað.

Það sem íbúar Sólheima standi frammi fyrir er þrennt;

  1. Öryggi fyrir áframhaldandi rekstri.

Félagsmálaráðuneytið hefur lýst því yfir að Sólheimar hafi ekki neina tryggingu fyrir því að fá fé til starfseminnar þann 1. janúar , þ.e. eftir „40“ daga, Reyndar hefur ráðuneytið gefið það í skyn að Sólheimar séu þá komnir á „vergang“.  Félagsmálaráðuneytið hefur lýst því yfir við sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi að „þeim beri ekki nokkur skylda til þess að kaupa þjónustu af Sólheimum“ og geti þannig þegar þeir vilji í raun lokað fyrir það að Sólheimar veiti fötluðu fólki þjónustu eins og þeir hafa gert í 80 ár.  Þessi staðhæfing er sérstök fyrir margra hluta sakir s.s. það að fagráðuneytið virðist gleyma því að það eru fatlaðir sem eiga að ráða búsetu sinni en ekki „misvitrir pólitíkusar“.

  1. Þjónustumat, er mat sem gera á árlega samkvæmt lögum. Þetta mat hefur ekki verið gert á Sólheimum í 8 ár.  Er það ásættanlegt að félagsmálaráðuneytið brjóti lög, ekki á Sólheimum heldur á fötluðu fólki sem býr á Sólheimum því það fólk á rétt á þjónustu samkvæmt matinu.  Sólheimar eru að óska eftir því að félagsmálaráðuneytið hætti að brjóta lög á fötluðu fólki!

Sólheimar óska eftir því  við ráðherra að hann geri samkomulag sem tryggi starfsemina fram til ársins 2014. Samkomulagið  komi þá til endurskoðunar  með sama hætti og það samkomulag sem ráðherra gerir varðandi  rekstur fyrir fatlaða  á vegum sveitarfélaga.  Hér er aðeins óskað eftir jafnræði.

  1. Friður um starfsemi Sólheima og öryggi.  Við flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga  er nauðsynlegt að taka  tillit til Sólheima.  Það að neita að ræða stöðu Sólheima eða standa á því að ekki megi gera undantekningu „af því að það eigi ekki að gera undantekningu“ leysir ekki það verkefni sem þarf að leysa.  Verkefnið þarf að leysa hvort sem þér líkar það betur eða verr.

Verkefnið er þetta;

–        Fatlaðir íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi  eru allir búsettir á Sólheimum og eru 14.3% af íbúum sveitarfélagsins.

–        Ef sama staða væri í Reykjavík  væru 12.270 fatlaðir einstaklingar þar í búsetu og atvinnu hjá einum þjónustuaðila.  Ekki einn af þeim einstaklingum væri fæddur í Reykjavík, né myndi kjósa að búa þar nema vegna þess að þar væri þjónustuaðili sem þessir einstaklingar óska eftir að fá þjónustu hjá.

–        Umræddir einstaklingar koma m.ö.o. frá öllum öðrum stöðum en þar sem þjónustan er veitt, sama staða á við þó menn fari að tala um þjónustusvæði.

–        Myndi félagsmálaráðherra segja við Reykvíkinga ef sama staða ætti við þar, þið skuluð tala við Seltirninga þeir taka örugglega vel í það að gera við ykkur samning,  það er það sem er í raun sagt við íbúa Sólheima?

–        Sólheimar bjóða upp á þjónustu á landsvísu og fatlað fólk af öllu landinu kallar eftir þeirri þjónustu.  Staðreyndin er  sú að ef fara ætti að vilja fatlaðra þá væru Sólheimar að þjóna  tvöfalt eða jafnvel þrefalt  fleiri einstaklingum en gert er í dag.

Nauðsynlegt  er að þjónusta fyrir fatlaða verði veitt áfram á Sólheimum vegna þess að  fjöldi fatlaðra einstaklinga  vill bæði búa áfram á Sólheimum og flytja þangað.  Þó svo að Sólheimar  falli ekki inn í þann „ferning“ sem þjónusta við fatlaða  á að fara í, þá breytir það ekki staðreyndum.  Staðreyndin er  að Sólheimar eru þjónustuúrræði á landsvísu, úrræði með 80 ára samfelda sögu.  Þetta verkefni þarf að leysa.   Ef ekki fyrir Sólheima þá fyrir þá 43 fötluðu einstaklinga sem þar búa – það er ekki lausn að loka augunum.

Guðmundur Ármann Pétursson.

Framkvæmdastjóri.

Sólheima ses.

Comments are closed.