Mikilvægir hlutir unnir í sameiningu í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fundaði þann 20 ágúst s.l. þar sem sem fjöldi mála var afgreiddur.  Eins og svo oft þá sammæltust menn um flest mikilvæg mál.

Ákveðið var að fresta afgreiðslu á erindi Orkuveitu Reykjavíkur um niðurrennslisholur á Nesjavöllum þar til umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands liggja fyrir.  Vissulega eigum við að greiða götu framkvæmda, en það eru vaxandi áhyggjur af afleiðingum þessara framkvæmda sem og af vatnsgæðum og lífríki Þingvallavatns.

Sveitarstjórn var samstíga í því að grundvalla ákvörðun sína á faglegu mati þessara tveggja stofnanna og því verður beðið þess mats.

Það er eðlilega kallað eftir því víða í sveitarfélaginu að lögð sé hitaveita þar sem hún er ekki til staðar í dag og margir aðilar sem óska eftir aðgangi að veitum sveitarfélagsins.  Svo eru auðvitað einnig þeir sem ekki hafa upp á síðkastið verið að óska eftir aðgang en eru þó í mikilli þörf eins og íbúar Grafnings.

Hitaveituframkvæmdir eru dýrar, en þær geta einnig verið hagkvæmar og fljótar að borga sig upp.  Það skiptir öllu máli að unnið sé faglega að uppbygginu veitukerfa og að hugsað sé mörg ár fram í tímann.

Sveitarstjórn tók þá sameiginlegu ákvörðun að fela Berki Brynjarssyni ásamt veitunefnd sveitarfélagsins að vinna tillögu að 10 ára áætlun sveitarfélagsins er varðar uppbyggingu á heita- og kaldavatnsveitum.  Fyrstu drög ber að leggja fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1 október n.k.

Það er eðlilegt að íbúar sveitarfélagsins hafi svo tækifæri  til að koma skoðunum sínum á framfæri er varðar áætlunina áður en hún verður formlega afgreidd í sveitarstjórn.

Með þessari áætlun mun sparast fé, horft verður til allra þátta og á þá lagt faglegt mat við uppbyggingu. Þá verður öllum íbúum sveitarfélagsins ljóst með hvaða hætti unnið verður að veitumálum næsta áratuginn.

Það er sveitarfélaginu okkar til sóma að sjá Kerhólsskóla sameinaðan í einstaklega fallegri byggingu.  Það er margt sem þarf að laga og bæta eins og ávallt er þegar flutt er inn í nýtt hús, en það er metnaður allrar sveitarstjórnar að hlúa eins vel að skólanum okkar eins og hægt er og það verður gert.

Því miður hefur okkur ekki lánast að ráða inn í leikskólann fagmenntaðan leikskólakennara.  Við búum þó við það lán að í leikskólanum sem grunnskólanum er einstaklega hæfileikaríkt og gott fólk starfandi.  Það breytir því þó ekki að nauðsynlegt er að ráða inn fagmenntaðan einstakling sem ber ábyrgð á faglegu starf leikskóladeildar.

Til að styðja við ráðninguna enn frekar ákvað sveitarstjórn að veita sveitarstjóra heimild til að greiða götu ráðningar með bættum starfskjörum.

Það er von mín að það beri árangur og að að getum gert gott skólastarf enn betra.

í nútímasamfélagi er aðgangur að ljósleiðara einn mikilvægasti þátturinn í þróun búsetu.  Það eru hagsmunir íbúa GOGG að allir íbúar sveitarfélagsins hafi aðgang að ljósleiðara / háhraða interneti.

Það var því ákveðið að óska eftir því við forsvarsmenn Mílu að þeir mæti á fund sveitarstjórnar og geri þar grein fyrir áætlunum fyrirtækisins varðandi uppbygginu á ljósleiðara næstu 3 ár í sveitarfélaginu.

Þetta þurfum við að vita þannig að hægt sé að leggja mat á stöðuna og bregðast við á faglegan hátt.

 

Comments are closed.