Kópavogshæli, erum við á sama stað í dag?

Screen Shot 2017-02-14 at 20.10.02

Grein sem ég ritaði í Morgunblaðið.

_________________________________________

Þær lýsingar sem koma fram í skýrslu Vistheimilisnefndar um Kópavogshæli eru sláandi og dapur vitnisburður um það samfélag sem var fyrir áratugum.

Við eigum að finna til þegar við lesum um hluti sem eru óboðlegir og eiga ekki að geta gerst hvort heldur atburðir eiga sér stað í nútíð eða fortíð.  Það er þó ávallt flókið þegar við setjum siðferði samtímans á atburði og athafnir fyrir áratugum og dæmum.

Það var mjög til fyrirmyndar þegar Sáttanefndin í Suður Afríku vann í því að gera upp fortíðina (aðskilnaðarstefnuna) að þá var það með samtali og fyrirgefningu.  Ekki datt mönnum í hug að bæta því við að ef sorgin var mikil sem vissulega var, að þá gæti viðkomandi átt von á að fá fé í bætur.

Gera þarf upp fortíðina á svo mörgum sviðum, en á sama tíma að draga lærdóm af sögu okkur og reyna að tryggja að við sem samfélag þroskumst og að samfélag okkar verði mannlegra og betra.

Það kemur ítrekað fram í skýrslu Vistheimilisnefndar að ábyrgð stjórnvalda er mikil s.s. að reglur hafi ekki verið til staðar, að lögum og reglum hafi ekki verið framfylgt, að mönnun var ekki nægjanleg, skortur var á fjármagni og fleira.

Sveitarfélög og sjálfstæðir rekstraraðilar eru í nákvæmlega sömu stöðu í dag.  Það getur hver sem er, hvenær sem er fullyrt að ekki sé næg mönnun eða að það sé ekki nægur fjöldi fagaðila starfandi í þjónustu við fólk með fötlun á hvaða stað sem er.

Þó notað sé SIS mat við mat á þjónustuþörf einstaklings með fötlun, þá er ekkert í SIS mati sem kveður á um lágmarksmönnum til að veita einstakling þá  þjónustu sem hann á rétt á, hvort heldur um er að ræða stuðningsfulltrúa eða fagaðila.

Það er nauðsynlegt að opinberir aðilar setji með skýrum hætti viðmið um hversu mikla mönnun einstaklingur á rétt á til að fá þá þjónustu sem réttur einstaklings segir til um.

Einstaklingurinn á að eiga rétt á því, að vita með skýrum hætti hvaða þjónustu og mönnun hann á rétt á.

Þjónustuveitandinn á að geta verið viss um að hann sé að veita þá þjónustu og þá mönnun sem einstaklingurinn á rétt á, á grunni viðmiðs sem opinberir aðilar hafa sett.

Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að árið 2017 sé réttur fólks með fötlun til þjónustu í raun ekki skýrari en hann var á tímum Kópavogshælis.

 

 

 

Comments are closed.