Kirkjudagur Sólheimakirkju, þann 6 júlí 2014

Það hefur mér lærst með árunum að spurningar eru mikilvægari en svör.

Þegar við tökum okkur biblíuna í hönd og lesum, þá erum við að lesa svör við spurningum sem fólk var að takast á við fyrir meira en tvö þúsund árum síðan.

Þessi svör sem eru í senn sögur og frásagnir hafa haft afgerandi áhrif á líf okkar allra.

Hvaða svör viljum við fá með trú okkar?

Er trú spurning um svör?

Á að svara siðferðisspurningum á grundvelli trúarbragða og ef ekki, þá á hvaða grundvelli?

Hvaða merkingu hefur það að vera trúaður?

Er það að segja að lífsviðhorf mín og gildismat séu í samræmi við viðhorf kristinna manna.  Er það þá hinn siðferðislegi þáttur trúarbragða?

Hvað með hinn trúarlega þátt, er það þátttaka í kristilegu starfi?  Já, örugglega.

En hvernig iðkum við trú okkar.

Er það með mætti bænarinnar?

Ég held að bænin og það “samtal” sem við eigum á þeim grunni við Guð sé það mikilvægasta sem kristin trú hefur fært okkur hverju og einu.

Með bæninni þá gerum við okkur sjálf að betri manneskju, við tölum til þeirra og þess sem okkur stendur næst og til þeirra og þess sem við ekki þekkjum.

Bænin byggir alltaf upp.

Samfélag okkar breytist mjög hratt og við höfum ekki tíma fyrir bænina, við höfum ekki tíma fyrir spurningar, við höfum ekki tíma fyrir það sem á að vera okkur mikilvægast.

Við erum allan sólarhringinn alla daga með yfirþyrmandi magn upplýsinga allt í kringum okkur.  Útvarp, sjónvarp, dagblöð, tímarit, tölvur, síma og fleira og fleira.

Það eru allir að segja okkur eitthvað og að reyna að hafa áhrif á okkur beint og óbeint.

Það er alltaf verið að reyna að stjórna hugsunum okkar.

Það er aðeins undir okkur sjálfum komið hvort að við látum eftir stjórnina á huga okkar eða ákveðum að hugurinn sé okkar.

Við þurfum að læra að þekkja okkur sjálf, við þurfum að velta fyrir okkur samhengi hlutanna, við þurfum að auka meðvitund okkar.

Stjórnum við hugsunum okkar?

Reynum við stundum að kyrra hugann og áttum okkur þá á því að hugurinn er á fullu, án þess að við höfum raunverulega verið um það meðvituð?

Rudolf Steiner segir að eitt það mikilvægasta sem hver einstaklingur geti gert sé að ná stjórn á hugsunum sínum, ég held að það sé rétt.

Við þurfum að vera meðvituð um mátt hugans og að hverri hugsun fylgir ábyrgð.

Allt mótast af hugsun okkar, það er ekkert til sem manns-hugurinn hefur ekki áður mótað, bæði gott og slæmt sem og fallegt og ljótt.

Kirkjan sem við erum í, í dag, var hugmynd sem hugur mótaði og hendur svo byggðu.

Sólheimar voru hugmynd sem fermingarstúlka fékk fyrir rétt um 100 árum síðan.  Þá var Sesselja ung stúlka að takast á við spurninguna hvernig get ég lagt þeim lið sem minna mega sín.

Hvernig við mætum lífinu er undir okkur sjálfum komið, afstöðu okkar og hugarfari.

Hugsum við á uppbyggilegan hátt gagnvart okkur sjálfum?  Okkar eigin hugur er á hverjum degi annað hvort að byggja okkur upp eða brjóta okkur niður.

Hugsanir okkar hafa allt um það að segja hvernig við bregðumst við og hvernig við komum fram við annað fólk.

Við eigum lífsgæði okkar undir hugarfari okkar.

Við þurfum hvert og eitt að velta fyrir okkur hvað mótar hugarfar okkar og hver mótar hugarfar okkar?

Við þurfum ávallt að muna samhengi spurninga og svara.  Við þurfum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og nýjum spurningum.

Sögð er saga af prófessor Einstein þegar hann lagði próf fyrir nemendur sína, þá segir einn nemandi hans; Einstein þetta er sama spurning og þú lagðir fyrir okkur í fyrra.  Einstein svaraði já en það er annað svar í ár !

Er núna sá tími kominn að við þurfum að nálgumst trú okkar með sama hætti og Einstein gerði gagnvart nemendum sínum?

 

Comments are closed.