Húsið og Eyrarbakki

OLYMPUS DIGITAL CAMERAEftir rétt um eitt ár verður Húsið á Eyrarbakka 250 ára gamalt. Við Íslendingar eigum mjög fá hús sem eru svo gömul, en Húsið á Eyrarbakka er í senn eitt elsta og merkilegasta húsið á Íslandi.

Húsið var byggt árið 1765 og var heimili faktora og verslunarstjóra Eyrarbakkaverslunarinnar fram á 20. öldina. Eyrarbakki var miðstöð verslunar og menningar á Suðurlandi. Húsið og íbúar þess voru þeir sem mest létu til sín taka í menntun, menningarlífi og verslun.

Verslunarhús dönsku kaupmannanna voru rétt vestan við Húsið og voru ávallt kölluð Vesturbúð. Þessi miklu og fallegu hús stóðu þar sem íslenskir bændur fóru með vörur sínar og sóttu sér aðföng í rétt um 200 ár. Sú ömurlega ákvörðun var tekin árið 1950 að verslunarhúsin yrðu rifin. Við þetta voru Eyrbekkingar mjög ósáttir, mótmæltu og kröfðust þess að húsin yrðu ekki rifin. Við þessa sorglegu ákvörðun var staðið og Vesturbúðin var tekin niður.

Eyrbekkingar hafa á síðustu árum gert sér æ betur grein fyrir sinni merku sögu og fallegu húsum. Stöðugt fleiri hús eru endurbyggð og færð til síns upprunalega horfs. Byggingarstíll gömlu húsanna er einstakur og þó svo meira beri á fallegum timburhúsum þá eru mörg af elstu steinsteyptu húsum Íslendinga að finna á Eyrarbakka.

Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og var mjög ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélagið hóf að laga gangstéttir og lýsingu með þeim hætti sem hentar vel hinni gömlu og fallegu götumynd.

Frystihúsið er orðið að menningarmiðstöðinni Gónhóli.  Ungt fólk stendur reglulega fyrir tónleikum heima hjá sér og býður heim.  Laugabúð hefur verið endurgerð og félagsheimilið Staður býður fólk velkomið.  Miklagarði var bjargað og þar er í dag einstaklega gott veitingahús, Rauða Húsið.  Jónsmessuhátíð og aldamótahátíð sameina Eyrbekkinga og gesti.

Byggðasafn Árnessinga  er í Húsinu og Assistentahúsinu.  Sjóminjasafnið er með áraskipið Farsæl og fjölda merkilegra muna sem tengjast sjósókn.  Byggðasafnið eflist stöðugt og fleiri munir bætast við.

Álíka margir ferðamenn  sækja Eyrarbakka heim og fara til Vestmannaeyja.  Því er fyrst og fremst að þakka Húsinu og þeirri alúð sem Eyrbekkingar hafa sjálfir sett í uppbyggingu á þorpinu sínu.

Það á að sýna stórhug árið 2015 þegar Húsið á Eyrarbakka verður 250 ára gamalt.  Því verður mestur sómi sýndur ef frá því verður gengið að Vesturbúðin verði endurbyggð.

Þetta er verkefni sem á að vera samstarfsverkefni Íslendinga og Dana.  Segja þarf sögu dönsku einokunarverslunarinnar og sögu Íslendinganna sem áttu ekki val um annað.  Það er hvergi jafn viðeigandi og á Eyrarbakka að þessi saga verði sögð.

Bæjarfulltrúar Árborgar, sveitarstjórnarmenn, þingmenn en fyrst og fremst Eyrbekkingar þurfa að standa saman að þessari framkvæmd og vinna henni brautargengi.

Höfundur ólst upp í Húsinu

 

 

Comments are closed.