Hin fullkomnu börn

Síðustu mánuði og misseri hefur ítrekað verið fjallað um einstaklinga / fóstur sem hafa Downs heilkenni.  Sú umræða hefur oftar en ekki verið í senn ljót og meiðandi.

Fluttar hafa t.d. verið fréttir af því að fyrir lok árs verði hægt með því að taka blóðprufu úr móður að greina hvort fóstur hafi Downs heilkenni.  Það verður meira að segja hægt að gera þetta á 9 viku þannig að jafnvel verður hægt að eyða fóstrinu áður en nokkur annar en móðirin veit að hún er þunguð, eins og það er orðað í fréttinni.

Þetta er svo stórkostleg framþróun að nokkur hundruð íslendingar sáu ekki bara ástæðu til að lesa umrædda grein, heldur höfðu þeir fyrir því að ýta á like, þ.e. að þeim líkaði innihald fréttarinnar.

Hver eru skilaboðin til einstaklings með Downs með þessum fréttum og því að mörg hundruð manns væntanlega vilja að allt sé gert til að einstaklingar með Downs fæðist ekki?

Hver eru skilaboðin til foreldra einstaklinga með Downs, systkina, vina og fjölskyldu?  Hvernig samfélag eru við að byggja upp?

Þessi umræða hefur ekkert að gera með rétt til fóstureyðingar.  Fósturskimun hefur það markmið að eyða út einstaklingum sem teljast  „frávik“ og „sköpulagsgölluðum fóstrum“ eins og segir í dreifibréfi Landlæknisembættisins um fósturskimun á meðgöngu frá því í nóvember 2008.  Þar segir reyndar einnig að öllum barnshafandi konum/verðandi foreldrum eigi að vera boðnar upplýsingar um skimun fyrir Downs heilkenni.  Hefði ekki verið eðlilegar að Landlæknisembættið legði áherslu á að við séum ólík og að fjölbreytileiki sé fagnaðarefni?

Það ber allt að sama brunni, það telst ekki eðlilegt að eignast barn með Downs og það er ekki æskilegt að eignast barn með Downs.  Það er allt gert til að draga úr möguleikum á að einstaklingur með Downs geti fæðst.

Til þess að átta sig á því hversu ómanneskjuleg og óeðlileg þessi umræða er þá hvet ég fólk næst þegar það les frétt um fósturskimun gagnvart Downs og/eða um aðrar leiðir til að hefta möguleika Downs einstaklinga á að fæðast að nota önnur orð í stað Downs.  Hvaða viðbrögð vekur það upp að það sama væri viðhaft  gagnvart konum, lesblindum,  múslimum, samkynhneigðum eða alkahólistum.   Allir þessir hópar fólks og reyndar svo miklu fleiri hafa talist „frávik“ og það metið að þjóðfélagið væri betra ef þeim væri útrýmt eða þeim haldið í skefjum.  Sumir þessir hópar eru enn að berjast fyrir tilverurétti sínum hérlendis og erlendis.

Af hverju er svona gróflega gengið fram í viðhorfum gagnvart einstaklingum með Downs?  Er þetta fólkið sem dregur okkur út í stríð, fólkið sem fremur kynferðisafbrot, fólkið sem fremur morð, fólkið sem misnotar vín og önnur eiturlyf eða fjárglæframenn?  Nei, fólk með Downs eru fyrst og fremst einstaklingar en flestir Downs einstaklingar eiga það þó sammerkt að vera hjarthlýir, opnir, jákvæðir og að gera samferðafólk sitt að betri einstaklingum.

Allar þjóðir hafa gert mistök og hjá mörgum þjóðum hafa farið fram þjóðernishreinsanir.  Sænska ríkið lét t.d. gera 60 þúsund ófrjósemisaðgerðir á sænskum konum á árunum 1936 til 1976 þar sem markmiðið var að losa þjóðfélagið við „óæðri“ stofna.  Þetta var fólk sem átti erfitt með nám, var í fátækum fjölskyldum eða var ekki með norrænt blóð í æðum.  Þetta er vissulega hræðilegt, en hvernig verður horft á gjörðir okkar gagnvart einstaklingum með  Downs eftir 30 ár?

Stjórnarskráin á að tryggja öllum mannréttindi og jafnan rétt.  Er orðið tímabært að tryggja í stjórnarskrá jafnan rétt fósturs, þ.e. að ekki megi eyða fóstri sökum þess að það sé með Downs eða hafi mögulega einhver önnur frávik?

 

Comments are closed.