Hátíðarræða á Borg í Grímsnesi, þann 17 júní 2014

 

Í dag er þjóðhátíðardagur okkar íslendinga – 17 júní.

Fæðingardagur Jóns Sigurðsson, sá dagur er valinn var stofndagur lýðveldisins.

Allt frá árinu 1907 hefur þessa dags verið minnst með opinberum hætti, Háskóli Íslands var t.d. í fyrsta sinn settur þennan dag og fleira má telja til.

Við eigum að virða söguna, muna hana og læra af henni.  Ef við horfum til Jóns Sigurðssonar þá eigum við að velta fyrir okkur fyrir hverju var barist?

Fyrir hvað stóð Jón Sigurðsson og hver voru baráttumálin sem leiddu til þess að við erum frjáls og fullvalda þjóð?

Jón barðist fyrir;

–       stjórnfrelsi

–       kjörfrelsi

–       málfrelsi

–       verslunarfrelsi

–       atvinnufrelsi

Jón lagði samhliða áherslu á að frelsi án takmörkunar væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.

Fyrir þessu barðist Jón Sigurðsson fyrir um 160 árum síðan og vakti okkur íslendinga til vitundar.

Við stofnuðum lýðveldi þann 17 júní árið 1944 sem frjáls og fullvalda þjóð.

Ég velti fyrir mér deginum í dag, við eigum fortíð, við eigum nútíð og við eigum framtíð.

Mér finnst að við eigum á þjóðhátíðardegi okkar að horfa á frelsið og velta því fyrir okkur hvort að við búum við frelsi – raunverulegt frelsi.

Það má færa fyrir því rök, að það sé betra að búa við ófrelsi og að vera meðvitaður um það, en að trúa því að maður búi við frelsi þegar maður raunverulega býr við ófrelsi.

Við eigum stöðugt að velta fyrir okkur hugtakinu frelsi, hvað er frelsi og hvaða ábyrgð fylgir frelsi?

Hvað merkingu hefur stjórnfrelsi í dag, hvernig eigum við að vinna með lýðræði.

Hvernig eigum við að stjórna okkar samfélagi, við erum í raun að gera það með sama hætti og við gerðum við stofnun lýðveldisins.

Það hefur í raun allt breyst frá stofnun lýðveldisins, af hverju veltum við ekki fyrir okkur, stjórnskipan okkar?  Framkvæmd og verklagi ríkis og sveitarfélaga?

Hvað merki atvinnufrelsi í dag, er það rétturinn til að geta fengið vinnu við hæfi, er það umgjörðin til framkvæmda og að geta skapað ný atvinnutækifæri?

Hver er ábyrgðin, hver er ábyrgð mín sem launþega?  Hver er ábyrgð mín sem atvinnurekanda?  Hver er ábyrgð mín sem íbúa þessa samfélags og þessa lands?

Þurfum við að berjast fyrir atvinnufrelsi, höfum við atvinnufrelsi, vitum við hvað við höfum og hvað okkur vantar?

Málfrelsi er það frelsi sem ég tel erfiðast og mikilvægast og það frelsi sem ég tel okkur hafa minna af en við teljum og viljum telja okkur trú um að við höfum.

Að verja rétt þess sem brýtur niður það sem við viljum byggja upp, að verja rétt þess sem ræðst að okkur með orðum – þann rétt þurfum við að verja.

Frelsi hugans er samofið málfrelsinu, hvernig frelsum við hugann?

Við frelsum hugann með því að hætta að kenna og segja.  Við spyrjum og veltum saman fyrir okkur hlutum.  Við vekjum áhuga, við finnum ástríðu, við lærum að hugsa á skapandi hátt og spyrja spurninga.

Í dag þá þurfum við ekki svör – við höfum öll heimsins svör á lyklaborðinu okkar – Google veit allt.

Það sem við svo sárlega þurfum eru spurningar og skapandi hugarfar.

Fyrir framan okkur eru sömu spurningar og voru fyrir framan Jón Sigurðsson fyrir 160 árum, við þurfum hvert og eitt að svara spurningum um frelsi.

Í dag þurfum við að frelsa hugann, það er barátta dagsins í dag og næstu ára.

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Comments are closed.