Fagleg vinnubrögð eða bitlingar

Stjórnmál sem byggja á bitlingum eiga í besta falli að vera stjórnmál fortíðar en ekki stjórnmál nútíðar.

Það er í senn niðurlægjandi, ófaglegt og óásættanlegt að slíkt sé látið viðgangast.

Þeir aðilar sem veljast til starfa í sveitarstjórnum eiga ávallt að vinna að almannahagmunum en ekki sérhagsmunum.

Fólki gengur yfirleitt gott eitt til, en vinnulag og reglur eða skortur á reglum getur verið þess valdandi að sérhagsmunir og bitlingar taka yfir.

Fjöldi aðila sækir til Grímsnes- og Grafningshrepps um styrk til vegabóta.  Verið er að styrkja sumarbústaðafélög um smáaura í flestum tilfellum, „ýmsa“ aðra aðila einnig og svo er styrkt um verulegar upphæðir vegna klæðninga sem settar eru á heimreiðar á lögbýli í samstarfi við Vegagerðina.

Fulltrúar K lista (undirritaður) lögðu fram tillögu á fundi sveitarstjórnar sem var til þess fallin að nýta betur fé sveitarfélagsins, auka jafnræði íbúa og tryggja betur fagleg vinnubrögð.

Þessi tillaga var felld af meirihlutanum.

Tillagan er þessi;

Undirrituð leggja til að í upphafi hvers árs verði auglýst eftir umsóknum um vegstyrki í sveitarfélaginu.

Þar falli undir allar þær vegbætur sem sveitarfélagið mögulega styrki s.s. til sumarhúsafélaga, landeigenda, lögaðila sem og vegna klæðninga á heimreiðar í samstarfi við Vegagerðina.  Samgöngunefnd meti umsóknir og geri tillögu til sveitarstjórnar á grundvelli fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.

Með þessum hætti myndi sveitarstjórn ákveði heildarupphæð fjármagns sem veitt er til vegbóta. Samgöngunefnd myndi auglýsa eftir umsóknum og ákveða áherslur hvers árs.  T.d. að leggja áherslu á heimreiðar í tiltekinn tíma og uppbyggingu á vegum í sumarbústaðahverfum í tiltekin tíma og leggja þá verulegt fé á tiltekna staði þannig að fé sveitarfélagsins myndi hafa raunveruleg áhrif til vegbóta.

Aðilar þurfa þá að sækja um fyrir hinn tiltekna tíma eða bíða eftir að næst verði auglýst eftir umsóknum um styrki.

Hægt væri að vinna faglega og markvisst ár fram í tímann og nýting á fjármagni sveitarfélagsins væri þá að skila mun meiru til íbúa sveitarfélagsins.

Tillögunni var hafnað án skýringa og oddvita falið að ræða við þá sem sóttu um.

Eru bitlinga – stjórnmál, þau stjórnmál sem íbúar GOGG vilja?

Comments are closed.