Excel ákvarðanir í málaflokki fatlaðra

Það eru því miður mörg mál sem félagsmálaráðuneytið hefur forðast að takast á við og vinna úr þegar kemur að fötluðu fólki og er nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar ágætt yfirlit yfir sorglega ákvarðanafælni fagráðuneytis í að byggja upp lagaramma og að vera stefnumótandi á framsækinn hátt í málefnum fatlaðra.

Það er með algjörum ólíkindum að sveitarfélög skuli sækja það af öllu afli að taka yfir málaflokk sem er í jafn miklum ólestri og raun ber vitni.  Það liggur auk þess  fyrir að staðfesta þarf ýmsa alþjóðlega sáttmála, breyta þarf lögum í náinni framtíð og stefnumótun fyrir málaflokkinn þarf að vinna frá grunni.

Þetta mun allt hafa í för með sér verulegar  breytingar á málaflokki fatlaðra, breytingar sem munu kosta mikla peninga.  Það er vafalaust til einhver embættismaðurinn sem horfir á tölur í excel og segir þetta er snilld, ríkið er að spara sér mikla fjármuni með því að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaga.  Ríkisvaldið fer loks í að setja lög, staðfesta alþjóðlega sáttmála sem og að marka stefnu sem er vonandi metnaðarfull, en vafalaust kostnaðarsöm.  Reikningurinn fer á sveitarfélögin, svo þegar þjónustan verður ekki veitt eða að hún er kannski veitt í Reykjavík en ekki í Kópavogi, í Árborg en ekki í ,,,.  Þá kemur upp kunnugleg staða, sveitarfélögin segja við fáum ekki nægar tekjur til að greiða þetta og ríkið segir sveitarfélögin fá nægar tekjur til að greiða þetta.

Það er nefnilega svo merkilegt að þegar sagt er að þetta verði svo mikið einfaldar við það að hafa þjónustuna á einni hendi að þá er því sleppt að tala um að tekjustofnarnir eru í raun á hendi ríkisins og ekki nein trygging fyrir að þeir breytist við lagabreytingar, sáttmála, stefnumótun og fleira sem áhrif hefur á þjónustu og þjónustustig hjá fötluðu fólki.  Ríki og sveitarfélög munu því eðlilega þrátta um tekjur og gjöld með þeirri einu afleiðingu að fatlaðir fá ekki þá þjónustu sem þeim er ætluð.

Í dag er þetta þrátt fyrir allt á einni hendi, þ.e. tekjurnar til að greiða fyrir málaflokkinn og greiðsla fyrir þá þjónustu sem fötluðum er veitt, það er jafnræði.

Því breyta menn aðeins til að stuðla að ójafnræði og óöryggi hjá fötluðu fólki?

 

Comments are closed.