Ég skil ekki fyrirkomulag innritunar á flugvöllum

Mér þykja breytingar á Keflavíkurflugvelli mjög vel lukkaðar, en sakna þess helst að geta ekki fengið kaffi hjá Kaffitár þegar ég á leið um Keflavíkurflugvöll.

Þó að það séu rök fyrir útboðum og arðsemi, þá má ekki gleyma því að það er og verður styrkur vallarins að framboð vara og veitinga enduspegli það að við erum á Íslandi. Veitingarnar hvort sem ég var á Arlanda eða í Keflavík voru frá Joe & Juce, þó að djúsinn og samlokurnar séu góðar þætti mér viðeigandi að fá „íslenskar“ veitingar hérlendis.

Ég er þó mest hugsi yfir fyrirkomulagi innritunar.  Þarna eru flugfélögin hvert með sitt svæði, mikið að gera hjá einu félagi og langar biðraðir og ekkert að gera hjá öðru.  Sjálfsinnritun er fyrir þá sem fljúga með einu flugfélagi en ekki öðru.

Í flugstöðinni eru dýr verslunarrými sem þurfa viðskiptavini, sumir fá að fara inn 2 klst fyrir brottför aðrir 3 klst.  Á meðan einn fer hratt í gegn er annar í biðröð, jafnvel í klukkustund eða lengur.

Þegar komið er í öryggisleit sér einn aðili um, ekki þarf að flokka farþega eftir flugfélögum eða hafa sér reglur.  Þar ganga allir jafnir að borði.  Þegar farangur er fluttur í og úr flugvél, þá virðist það gert af einum aðila sem heldur vel um og tryggir ágætlega óháð með hverjum er flogið að farangur fylgi farþega.

Ég spyr þvi getur það ekki verið á ábyrgð flugvallarinns að sjá um innritun í flug – öll flug?

Á ekki flugfélag selja ferðir og flytja farþega. Flugvöllurinn að sjá um innritun, öryggiseftirlit og töskur.

Það er án efa hagkvæmar að hafa þetta á einni hendi bæði fjárhagslega og faglega.  Væri ekki gaman að sjá Keflavíkurflugvöll brjóta blað og fara nýja leið sem verður öðrum til eftirbreytni.

Comments are closed.