Ánægjuleg sinnaskipti velferðarráðherra

Viðtal er við velferðarráðherra á forsíðu fréttablaðsins þann 6 júní þar sem ráðherra gengur rösklega  fram og boðar aukið eftirlit með meðferðarstofnunum.  Gera þurfi eftirlit óháðara og sjálfstæðara en verið hefur, enda hefur þetta að sögn ráðherra verið á hendi sömu aðila og semja um starfsemina.  Til að auka enn vægi orða sinna vísar ráðherra í gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem gagnrýnir það að sami aðili geri samninga og hafi eftirlit með þeim.

Játning ráðherra vekur einnig nokkra athygli en þar segir ráðherra að það þurfi að vera miklu meira eftirlit með minni samtökum.  Síðan hvenær fór eftirlit að vera bundið við stærð?

Það sem vekur þó mesta athygli í þessu viðtali er að sami velferðarráðherra var flutningsmaður breytinga á lögum um málefni fatlaðs fólks sem tóku gildi fyrir 6 mánuðum síðan.  Í þeim lögum sem ráðherra mjög svo beitti sér fyrir að yrðu samþykkt segir að sami aðili beri ábyrgð á fjármögnun þjónustu, því að veita þjónustuna og að hafa eftirlit með sjálfu sér.  Þessum sama aðila er svo einnig falið að veita sjálfstæðum aðilum starfsleyfi, sem þessi sami aðili getur svo dregið til baka ef hann telur ástæðu til.

Þessi sami aðili sem fjármagnar þjónustuna (sveitarfélag) veitir þjónustuna og hefur svo eftirlit með sjálfu sér getur gert samning við sjálfstæðan rekstraraðila sem hann svo sjálfur hefur eftirlit með, þ.e. aðila sem hann er sjálfur að bjóða þjónustu á móti.  Það vekur því sérstaka athygli þegar ráðherra undirstrikar mikilvægi þess að SÁÁ sé ekki eitt á markaðnum í umræddu viðtali, enda var ein megin hætta nýrra laga um málefni fatlaðs fólks sú að sveitarfélögin yrðu ein á markaðnum!

Gerðar voru afdráttarlausar athugasemdir við ráðherra og félagsmálanefnd alþingis varðandi  það að ekki gengi að sami aðili greiddi fyrir þjónustu, veitti þjónustuna og hefði svo eftirlit með sjálfu sér.  Hvorki ráðherra né félagsmálanefnd alþingis sáu ástæðu til að verða við þeim óskum um breytingar.

Ráðherra mun væntanlega leggja fram á næsta þingi breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks þannig að sami aðili sé ekki greiðandi, þjónustuveitandi og eftirlitsaðili enda hefur ráðherra sjálfur fært afbragðs rök fyrir því að þetta gangi ekki upp.

Comments are closed.