Æskuheimilið 250 ára

9157329e-54ad-41a2-8487-180be0ab573e_MÍ dag var því fagnað að Húsið á Eyrarbakka er 250 ára gamalt.  Um 200 manns mættu á hátíðarhöldin og þó Húsið sé rúmgott og stórt að þá varð að færa dagskránna yfir í Eyrarbakkakirkju og fór vel á því.

Mér þótti vænt um að vera boðið að vera með stutt innlegg á þessum tímamótum með góðu fólki, en í Húsinu við Götuna á Eyrarbakka ólst ég upp.

Mér þykir vænt um Húsið, mér þykir vænt um Eyrarbakka og Eyrbekkinga. Sagði frá Hertu minni, Guðlaugi kaupmanni, sögu af okkur bræðrum, vatninum í brunninum og fleiri minningum.

Það var mér mikil gæfa að fá að alast upp á Eyrarbakka og að sjá móður mína breyta engu venjulegu húsi í heimili.

Að fá að kynnast þeim merka manni Guðmundi Einarsyni smið frá Ásheimum handverksmanni af gamla skólanum sem gat gert allt og gerði allt þegar kom að Húsinu á Eyrarbakka. Við urðum vinir, hann byggði hús á lóðinni við hliðina á húsinu sínu og gaf það Heilbrigðisstofnun Suðurlands svo hægt væri að hafa heilsugæslu í viðunandi húsnæði á Eyrarbakka. Aldrei talaði hann um það, hann bara gerði það, maður lærir mikilvæga hluti af svo vönduðum einstakling.

Olga og Dagbjartur voru einstök hjón sem bjuggu í Garðbæ og hafði Dagbjartur um árabil passað vel upp á Húsið og allt sem því tengist áður en foreldrar mínir eignuðust Húsið.  Dagbjartur var orðinn fullorðinn maður þegar ég kynntist honum, en við kynntumst og ég fann í honum einstaklega góðan og vandaðan mann sem mér þótti vænt um.  Olga var einstök kona sem sýndi mér væntumþykju líkt og væri ég hennar eigið og inn á hennar heimili gat ég farið um eins og það væri mitt.  Hún bjó til þær bestu lagkökur sem gerðar hafa verið.  Olga er kenndi mér, leiðbeindi og studdi á allan hátt.

Það er mikill fjöldi fólks sem hefur áhrif á líf ungs manns og það var mín gæfa að alast upp á Eyrarbakka og að fá tækifæri til að kynnast því einstaka mannlífi sem þar var.

Það eru forréttindi að fylgjast með sinni gömlu heimabyggð þróast og þroskast, þar eru svo margir góðir einstaklingar að vinna gott starf, þar sem byggt er á sögu Eyrarbakka og þar sem byggt er upp af virðingu.

Mér finnst til fyrirmyndar vinna þeirra Ingu Láru og Magnúsar Karels við Lauga-búð, að sjá Rauða Húsið (MiklaGarð) blómstra í endurbyggðu húsi. Gistingin hjá Margréti Kristjáns þar sem hún breytir gömlum húsum og leigir til ferðamanna og að dást að því hvernig þeir Guðmundur og Gísli Kristjánssynir hafa endurgert fjölda húsa á Eyrarbakka, kraft Siggeirs í að standa fyrir fjölbreyttum viðburðum á Eyrarbakka og Björn lngi sem leggur stöðugt gott til Eyrarbakka með sinni vinnu.

Árborg leggur sitt til með því að laga götumyndina af virðingu fyrir einstakri húsasögu Eyrarbakka.

Auðvitað er fjöldi annara einstaklinga sem ég nefni ekki að leggja Eyrarbakka gott til en þar liggur styrkur Eyrarbakka, Eyrabekkingar eru gott fólk sem vilja leggja samfélaginu sínu gott til.

Á Eyrarbakka er sár, en það sár myndaðist þegar verslunarhúsin voru rifin.  Verslunarhúsin þarf að endurbyggja í sinni upprunalegu mynd, þau eiga að segja sögu einokunnarverslunar Dana á Íslandi, frá sjónarhorni bæði dana og íslendinga.  Dönum væri sómi af því að færa Íslendingum þau að gjöf og svo íslendingum að reka í þeim safn um einokunarverslunina, slíkt safn á hvergi betur heima en í gömlu verslunarhúsunum á Eyrarbakka.

Mín von er að Eyrarbakki muni sem aldrei fyrr blómstra á grunni sinna sérkenna sem eru Húsið, alþýðumenning og saga einokunnarverslunar Dana á Íslandi.

b63d0548-f780-4d08-88c0-5814547d5bb8_L1800

 

 

Comments are closed.