Að vera fyrirmyndar fyrirmynd

Screen Shot 2017-04-27 at 21.41.08

Grein sem ég ritaði í SUÐRA / Pressuna.

————————————————————————–

Það er eitt mikilvægara en að eiga góða fyrirmynd, það er að vera góð fyrirmynd.

Við þurfum að taka eftir góðum fyrirmyndum og vekja athygli á þeim svo að við getum fleiri notið þeirra og lært af.

Fólkið sem gerir „meira“ er okkur fyrirmynd. Fólk sem gefur af tíma sínum til verkefna á vegum Rauða Krossins, til kirkjunnar og tekur þátt í ýmsu félagsstarfi. Fólkið sem heldur úti íþrótta- og skátastarfi fyrir börn og unglinga, styður við tónlistarnám og leiklist. Þetta er fólkið sem er börnum okkar og samfélagi mikilvægt og er okkur í senn fyrirmynd og hvatning.

Leikvöllur, göngustígur, vel við haldið hús, jákvæður bæjarbragur, öflugt menningar- og listalíf hefur jákvæð áhrif á hvert samfélag og hvetur okkur til að njóta, bæta og að gera enn betur.

Fólk sem tekur upp rusl þegar það gengur um götur bæjar, fólk sem brosir og mætir hverjum manni með hlýju viðmóti, ástfangið par á göngu.  Einstaklingurinn sem tekst á við krefjandi aðstæður lífsins af æðruleysi.  Sálgæslan og stuðningurinn sem á sér jafnt stað í kaffispjalli, á heilsugæslunni, á rakarastofunni, í göngutúr eða í heitapottinum.  Alls staðar er gott fólk sem er góð fyrirmynd.

Þó að við eigum sterkar fyrirmyndir í Mandela, Gandhi, Franz páfa og mörgum öðrum, þá skulum við ekki gleyma að líta okkur nær.

Ég held að það væri góður vani að setja sér það að finna eina nýja fyrirmynd úr okkar nærumhverfi á hverjum einasta degi ársins.  Við beinum þá athygli okkar í enn ríkara mæli að því góða og nánast leitum það uppi hvar í veröldinni sem við erum þann daginn.  Í lok árs eigum við 365 nýjar fyrirmyndir – það eru forréttindi.

 

Comments are closed.