Að eiga sér fyrirmynd

Fyrir 30 árum gekk Reynir Pétur hringinn í kringum Ísland og var tilgangur göngunnar að safna fé þannig að hægt yrði að byggja íþróttaleikhús á Sólheimum.

Íslandsgangan varð þó mjög fljótt miklu meira en fjársöfnun.

Fram á sjónarsviðið hafði stigið heilsteyptur, einlægur og sjarmerandi einstaklingur sem náði að heilla þjóðina á þann hátt sem ekki hafði verið gert áður.

Þjóðin sá einstakling sem hafði þann stimpil að vera fatlaður í upphafi göngu sinnar, en þeim fjötrum kastaði Reynir á göngu sinni og varð uppáhald þjóðarinnar.

Göngugarpurinn Reynir Pétur varð þjóðþekkt fyrirmynd fatlaðra sem ófatlaðra.

Við gleymun því of oft að við erum öll fyrirmynd fyrir einhvern og ég held oft fyrir miklu fleiri en við áttum okkur á.  Fyrir suma erum við fyrirmynd allt lífið, fyrir aðra í mánuði eða ár.  Við getum einnig verið fyrirmynd eitt andartak, en það andartak getur haft afgerandi áhrif á líf einstaklings.

Það er ekki val að vera fyrirmynd, né heldur fyrir hvern við erum fyrirmynd, en við höfum val um það hvort að við erum góð eða slæm fyrirmynd.

Með því að vera góð fyrirmynd afrekaði Reynir Pétur fyrir 30 árum að breyta hugarfari samfélagsins gagnvart fólki með fötlun.

Það sem Reynir Pétur afrekaði er einstakt og mér er til efs að einn einstaklingur hafi gert meira til að breyta hugarfari þessarar þjóðar gagnvart fötluðu fólki.

Reynir Pétur var og er góð fyrirmynd.

Comments are closed.