Þegar mannlegur fjölbreytileiki verður áhætta

Nýlega var byrjað að bjóða upp á meðgöngutryggingu á Íslandi. Tryggingu sem á að veita verðandi foreldrum hugarró ef eitthvað bjátar á á meðgöngu eða við fæðingu. 

Virðist virkilega jákvætt, enda hver vill ekki tryggja öryggi fjölskyldunnar á viðkvæmum tíma.

Þessi trygging vekur þó upp spurningar sem varða ekki aðeins tryggingar heldur líka siðferði, manngildi og viðhorf samfélagsins til mannlegrar fjölbreytni.

Þegar fjölbreytni er sett undir sjúkdómsflokk

Í skilmálum tryggingarinnar segir að barnið sé „tryggt fyrir meðfæddum sjúkdómum“ sem sýna einkenni á fyrsta ári í lífi þess.

Á listanum eru talin upp atriði á borð við Downs heilkenni, heyrnarleysi, sjónskerðing, klofin vör og fleiri meðfædd einkenni.

Þegar slík mannleg einkenni eru flokkuð sem „sjúkdómar“ sem hægt er að tryggja gegn, þá er ekki aðeins verið að bjóða upp á þjónustu. Það er verið að móta viðhorf – viðhorf sem segja að ákveðnir einstaklingar og ákveðin líf kalli á bætur vegna þess að þau séu frábrugðin hinu „venjulega“.

Slíkt orðaval hefur áhrif. Það mótar skilning okkar á mannlegu virði. Það sem ætti að teljast hluti af eðlilegri fjölbreytni mannlífsins er þar með sett undir sama hatt og sjúkdómar og slys.

En flest þessara atriða eru ekki sjúkdómar í hefðbundnum skilningi. Þau eru hluti af eðlilegum mannlegum breytileika og hafa mótað fjölbreytileika samfélags okkar frá upphafi. Að flokka slík einkenni sem “sjúkdóm” sem tryggja beri gegn, er ekki bara tæknilegt orðaval — það er viðhorf.

Viðhorf sem spegla fortíðina

Á undanförnum áratugum hefur átt sér stað mikilvæg viðhorfsbreyting og breytt orðræða þegar kemur að fötlun.  Fötlun er ekki vandi einstaklingsins, heldur samspil einstaklings og samfélags.  Verkefnið er að ryðja úr vegi samfélagslegum hindrunum og breyta viðhorfum.  

Í því ljósi er áhyggjuefni þegar tryggingafélag beitir hugtökum sem endurspegla gamla læknisfræðilega hugsun — þar sem fjölbreytni mannlífsins er skilgreind sem frávik sem beri að bæta upp fjárhagslega.

Þegar tryggingafélag setur verðmiða á það að fæðast með Downs heilkenni, heyrnarleysi, skarð í vör eða sjónskerðingu, þá er ekki lengur verið að tala um tryggingu. Þá er verið að senda skilaboð um hvað samfélagið telur eftirsóknarvert og hvað það vill helst forðast.  

Tæknin er á fullri ferð þegar kemur að skimun í móðurkvið, lagaleg umgjörð er ekki til staðar og það er nánast hægt að skima fyrir öllum þeim þáttum sem gera mannlegt samfélag að því sem gerir það heillandi, fjölbreytt og litskrúðugt. Hvaða þáttum/sjúkdómum ætli verði bætt við tryggingarverndina næst?

Markaðurinn sem mótar siðferðið

Tryggingafélög bera, líkt og öll fyrirtæki sem starfa í samfélaginu, samfélagslega ábyrgð. Sú ábyrgð felst ekki aðeins í fjárhagslegum stöðugleika, heldur líka í því hvernig þau tala um fólk, fjölbreytileika og lífsgildi.

Þegar tryggingafélög ákveða hvaða einstaklingar/fóstur eru “áhættusöm” og hver ekki, þá eru þau að móta samfélagslega sýn á mannlegt verðmæti. 

Viljum við að það séu tryggingafélög sem séu leiðandi í að móta viðhorf okkar til mannlegs fjölbreytileika eða viljum við opna umræðu byggða á öðrum forsendum?

Fjölbreytileiki er ekki mistök

Mannleg fjölbreytni er ekki áhætta sem þarf að tryggja gegn – hún er grundvöllur samfélagsins.

Að fæðast með Downs heilkenni, heyrnarleysi, klofinn góm eða sjónskerðingu eru ekki mistök í líffræðinni. Það er hluti af fjölbreyttu mynstri mannlífsins sem við eigum að læra að virða og rækta, ekki að mæla með tryggingarfræðilegum kvarða.

Ef tryggingafélög vilja leggja sitt af mörkum til fjölbreytileikans væri gott að sjá tryggingar sem byggja á virðingu fyrir fjölbreytileikanum, ekki ótta við hann.  

Við þurfum tryggingu fyrir fjölbreytileika mannlegs samfélags – ekki gegn

Þeir sem kaupa meðgöngutryggingu gera það án nokkurs vafa af ábyrgð og umhyggju.

En sem samfélag þurfum við að spyrja: hvað erum við í raun að tryggja?  Erum við að tryggja öryggi fjölskyldunnar — eða að tryggja það að börnin okkar verði ekki “frávik”?

Við þurfum ekki tryggingu gegn fjölbreytileikanum — við þurfum tryggingu fyrir því að hann fái að þrífast.

Comments are closed.