Ábyrgðin sem felst í samtalinu

Það eru forréttindi að búa á Íslandi. Hér höfum við í áratugi ræktað lýðræðið í anda gagnkvæmrar virðingar og samtals.


Við höfum skapað samfélag þar sem sífellt fleiri raddir fá að heyrast, raddir fatlaðs fólks, verkafólks, ungmenna, eldra fólks, jaðarsettra hópa og hagsmunasamtaka. Þessi þróun hefur ekki gerst af sjálfu sér. Hún byggir á því að hlustun og umræða hefur verið metin að verðleikum og að gagnstæð sjónarmið fá að mætast í opnu samtali, samtali sem leiðir til niðurstöðu.

Það vekur ugg að sjá forseta Alþingis beita heimild í þingsköpum til að ljúka umræðu og færa mál beint til atkvæðagreiðslu. Þótt formlegur réttur sé fyrir hendi að þá vakna áleitnar spurningar.

Þegar lokað er fyrir samtal er ekki verið að stytta leiðina að lausnum. Það er verið að grafa undan trúverðugleika og trausti. Það er verið að senda skilaboð út í samfélagið. Það er verið að setja fordæmi, ekki bara á Alþingi heldur í samfélaginu öllu gagnvart röddum sem þurfa og eiga að heyrast. Því samtöl eru eins og mannlegt samfélag, auðveld, erfið, flókin, einföld, leiðinleg og skemmtileg.

Við lifum á tímum þar sem tortryggni gagnvart stjórnmálum og stofnunum vex. Þegar fólk horfir á fréttir með börnum sínum og sér kjörna fulltrúa fara fram með gífuryrðum, blótsyrðum og jafnvel hótunum að þá eru áhrifin dýpri og meiri en margur gerir sér grein fyrir. Samtal krefst þess að við tölum þannig að við myndum þola að heyra eigin orð af vörum barna okkar.


Það þarf ekki að forðast ágreining. Þvert á móti — hann er nauðsynlegur hluti af lifandi lýðræði. En það er ábyrgð okkar allra, ekki síst þeirra sem fara með vald, að viðhalda virðingu í umræðu. Að hlusta, svara og rökstyðja, ekki þagga.

Ef samtal dregst á langinn þá er það ekki sjálfkrafa merki um að það sé tilgangslaust. Það getur þvert á móti bent til þess að við höfum ekki enn náð sameiginlegri sýn og að nauðsynlegt sé að halda áfram að hlusta.

Sannur málsvari málfrelsis er sá sem ver með ástríðu rétt andstæðings síns til að tjá skoðanir sínar. Sá sem trúir á lýðræði hræðist ekki umræðu – hann dýpkar hana.

Við getum öll verið fyrirmyndir. Það gerum við með því að tala af virðingu og með því að standa vörð um samtalið sjálft, sérstaklega þegar okkur þykir það erfitt.


Comments are closed.