Ef við meinum það sem við segjum – að þá breytum við menntakerfinu

Við segjum að menntun sé mannréttindi. Að samfélagið eigi að vera fyrir alla. Að fjölbreytileiki sé styrkur. En þegar kemur að aðgengi fatlaðs fólks að námi – þá reynir á hvort þessi orð haldi gildi sínu í framkvæmd.

Í skýrslu sem unnin var af starfshópi á vegum stjórnvalda árið 2023 voru lagðar fram ítarlegar og vel ígrundaðar tillögur um hvernig tryggja mætti fötluðu fólki, þar á meðal einstaklingum með þroskahömlun, raunveruleg og inngildandi tækifæri til náms og starfsþátttöku.

Tillögurnar spanna framhalds- og háskólastig og leggja ríka áherslu á samfellu á milli þeirra. Því að inngildandi menntun verður ekki að veruleika ef einstök skólastig eru unnin í silóum. Það þarf að huga að stíganda – að því hvernig fólk með ólíkar námsþarfir getur haldið áfram námi án þess að stöðvast vegna kerfislegra hindrana, flókins aðgangs eða skorts á stuðningi.

Á framhaldsskólastigi er gerð skýr krafa í skýrslunni um að hætta aðgreiningu og umbreyta svokölluðum „starfsbrautum“ í opnar námsbrautir sem standi öllum til boða – með einstaklingsmiðaðri aðlögun, stuðningi og fjölbreytilegu námsframboði. Markmiðið er að nemendur með þroskahömlun séu hluti af skólasamfélaginu – ekki við hlið þess.

Það er í framhaldsskóla sem margir fatlaðir einstaklingar lenda í blindgötu. Þeir ljúka starfsbraut en finna engar leiðir áfram. Í stað þess að vera hvattir áfram í námi, mætir þeim veggur – ekki vegna skorts á getu, heldur vegna kerfis sem býður upp á einbreiða leið sem hæfir aðeins hluta samfélagsins.

Þess vegna skipta tillögurnar sem varða háskólastigið jafn miklu máli. Þær kalla eftir að brotin verði upp hefðbundin inntökuskilyrði, t.d. stúdentspróf og í staðinn komið á aðfaranámi sem er opið öllum – óháð fyrri skólagöngu. Einnig er lagt til að allir háskólar landsins sameinist um opna, sameiginlega innritunargátt fyrir alla og að þar geti fatlaðir nemendur sótt um og óskað eftir stuðning án hindrana.

Tillögurnar leggja áherslu á að fjölga styttri námsleiðum og að þróa starfstengt nám – með diplómum eða viðurkenndum lokum sem veita nemendum raunverulegt færi á að nýta námið á vinnumarkaði. Þetta á að vera hluti af breiðari inngildingu. Auk þess á að huga markvisst að fræðslu og þjálfun kennara og starfsfólks.

Þetta er ekki aðeins umbótalisti. Þetta er sýn. Sýn á menntakerfi þar sem hæfileikar, áhugi og vilji einstaklinga ráða för – ekki skilyrði sem útiloka eða þagga niður í möguleikum fólks. Þetta er sýn þar sem framhaldsskóli og háskóli tala saman og byggja sameiginlega brú yfir á vinnumarkað, samfélagsþátttöku og sjálfstætt líf.

Tillögurnar liggja að mestu óhreyfðar á borði stjórnvalda og á meðan bíður hópur fólks eftir að fá tækifæri til að taka þátt – á eigin forsendum – í menntakerfi landsins.

Það er ekki nóg að við viðurkennum mikilvægi fjölbreytileika í orði. Það þarf að birtast í kerfum okkar, í skipulagi náms, í stuðningskerfum, í aðgengi, í verklagi og menningu menntastofnana. Ef við meinum að allir eigi að geta lært og vaxið, þá þurfa innviðir menntakerfisins að endurspegla þann vilja – án undantekninga.

Menntun er lykill að atvinnu, sjálfstæði, þátttöku og lífsgæðum. Þegar menntakerfið útilokar heilan hóp fólks með beinum eða óbeinum hætti – þá er samfélagið að hafna eigin gildum.

Það skiptir máli að þessar tillögur verði ekki glatað tækifæri. Að samfélagið bregðist ekki þegar mest á reynir. Að við látum ekki fögur orð nægja – heldur fylgjum þeim eftir með breytingum í verki.

Höfundur var í starfshóp félags-, háskóla- og mennta- og barnamálaráðherra um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk sem skilaði tillögum sínum í árslok 2023.

Comments are closed.