Úti að aka eða inni að vinna

Að afloknum kosningum eru fastar í huga mér myndir af leiðtogum og oddvitum stjórnmálaflokka í bland við hefðbundna „frasa“ hægri-, mið- og vinstrimanna.  Myndir af núverandi og tilvonandi þingmönnum að heimsækja alþýðu okkar lands, brosandi, hlæjandi og faðmandi hvern þann sem á vegi þeirra varð.  Þeir samskiptamiðlar sem ég nýti mér voru yfirteknir af boðskap stjórnmálaflokka og leiðtogadýrkun.

Með hverju misserinu virðist aukast mikilvægi „sýnileika“ þingmanna.  Að þingmenn séu í „tengslum“ við kjördæmið er krafan sem við gerum til þingmanna. Blessaðir þingmennirnir hamast við að „mæta á staðinn“.  Oft með þeim hætti að tvær til þrjár myndir sem póstað er á samfélagsmiðil verða mikilvægari en innihald þess viðburðar/fundar sem mætt er á.

Dugnaður þingmanna Suðurkjördæmis er slíkur að 2 af hverjum 3 krónum sem voru endurgreiddar af Alþingi árið 2016 vegna aksturs þingmanna runnu til þingmanna Suðurkjördæmis.

Það að vera til umfjöllunar og að vera alls staðar er málið.  Á ekki von á því að þetta sé fyrst og fremst vegna óska þingmanna heldur er þetta krafa okkar kjósenda.  Það er tímabært að velta fyrir sér hvað það er sem við viljum sjá hjá þingmönnum okkar; eiga þeir að vera úti að aka eða inni að vinna!

 

 

Comments are closed.