Vinstri Grænir og erfðabreytt Ísland

Það er algjörlega með eindæmum að það skuli vera ráðherra Vinstri Grænna sem hleypi því í gegn og nánast í skjóli nætur að leyfa erfðarbreytta ræktun utandyra á Íslandi.  Ég hefði frekar átt von á því að umhverfisráðherra VG hefði afturkallað það leyfi sem var til inniræktunar á erfðarbreyttu í gróðurhúsi.

Það athyglisverða við þetta skref er, að það að leyfa notkun á erfðabreyttu á Íslandi eru í raun einhver mestu umhverfisspjöll sem hægt er að framkvæma í nokkru landi.  Það hefur ávallt verið staðhæft að erfðarbreytt muni ekki fara út í náttúrunna, en það virðist ávallt hafa gert það, má þá t.d. sérstaklega horfa til Brazilíu og Bandaríkjanna.  Í raun væri hægt að brjóta niður vatnsaflsvirkjun og endurheimta að stórum hluta það sem skemmt var, hægt er að hreinsa upp eftir olíuslys og flest er í raun hægt að laga hversu raunhæft sem það kann að vera, en erfðabreytt er ekki hægt að taka til baka.

Það er hægt að rita langa grein um skaðsemi erfðarbreyttra hluta,  en það merkilega er að það er einnig hægt að skrifa jafnvel enn lengri grein um hvað erfðabreytt er hollt og jákvætt.  Vísindin eru breytileg og það sem þau segja í dag eru gamlar fréttir á morgun.   Vísindamenn heldu því fram langt fram eftir 20 öldinni að reykingar væru meinhollar – nú hafa þessir vísindamenn dregið sig til hlés, en við sitjum uppi með krabbameinið, getuleysið, hjartasjúkdómana og kostnaðinn.  Erum við kannski að horfa á það sama með erfðabreytt?

Ágæti umhverfisráðherra, það er margt jákvætt að gerast á íslandi í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, sprotafyrirtækjum og fleiru.  Erfðabreytt á ekkert erindi til Íslands, eitt mesta lán Íslands væri að ríkisstjórn Íslands myndi samþykkja að þínu frumkvæði að Ísland væri án erfðarbreyttra lífvera.  Sú yfirlýsing væri einstök í veröldinni og myndi með rækilegum hætti staðfesta það að Ísland er hreint land þar sem náttúran nýtur vafans og setja íslenska matvæla- og ferðaþjónustu í sérflokk.

Erfðabreytt eða ekki erfðabreytt hefur í raun ekkert með vísindi að gera, þetta snýst um kjark og pólitískan vilja, en þó fyrst og fremst um framtíðarsýn.  Er framtíðarsýn umhverfisráðherra Vinstri Grænna fyrir Ísland virkilega erfðabreytt?

Comments are closed.