Nýjabæjarmálið og réttindagæsla á villigötum

Umfjöllun Kastljóss á svokölluðu Nýjabæjarmáli og kynferðisbrotum á fötluðum konum er í senn tímabært og vandað, þó málið sé ömurlegt.

Mér finnst réttindagæsla fatlaðs fólks vera á villigötum. Mjög fljótlega eftir að rannsókn á svokölluðu Nýjabæjarmáli hófst frétti ég af rannsókninni.

Mín fyrstu viðbrögð voru að hafa samband við réttindagæslumann fatlaðs fólks og spyrja hvort að réttindagæslumaður vissi af þessu máli og ef svo væri hvort að réttindagæslumaður legði ekki til við þjónustuveitendur og fatlað fólk að það myndi ekki nýta sér þessa þjónustu á meðan á rannsókn stæði.

Svarið var að viðkomandi vissi um málið og stöðu þess. Réttindagæslumaður hafnaði því að leggja það til að fatlað fólk myndi hætta að nýta þjónustu Nýjabæjar á meðan á rannsókn stæði. Með því væri réttindagæslumaður að brjóta á rétti hins fatlaða.

Ég tók þá ákvörðun að brjóta á rétti fatlaðs fólks á Sólheimum og hringdi í forsvarsmann Nýjabæjar tilkynnti viðkomandi að þeir sem ættu bókaða dvöl á Nýjabæ myndu ekki mæta né myndi annað fatlað fólk búsett á Sólheimum koma til dvalar á Nýjabæ.

Til þess að vernda, þá varð ég að brjóta á rétti hins fatlaða einstaklings eins og það er skilgreint af þeim sem eiga að vernda rétt hins fatlaða.

Það heyrist æ oftar hjá þeim sem mest berja sér á brjóst í umræðu um mannréttindi að fatlað fólk og þá einnig þroskaskert eigi rétt á því að gera mistök og að brenna sig  í lífinu og því megi ekki og eigi ekki að grípa inn í.

Það er vitað að þroskaskertar konur heimsækja „karla“ og taka þátt í kynferðislegum athöfnum með þeim.  Samskipti þar sem einstaklingar eru ekki að mætast sem jafningjar og klárt öllum þeim sem vilja vita að um misnotkun er að ræða.  Á þessu er ekki tekið, því þetta er „vilji hins fatlaða einstaklings og hans réttur“.

Það fer alveg ótrúlega lítið fyrir því sama fólki og talar um rétt þegar þarf að sækja einstaklinginn brotinn og oft örmagna á sál og líkama.

Er rétturinn til að vera misnotaður nauðsynlegur þegar kemur að réttindum þroskaskertra einstaklinga?

 

Comments are closed.